Hægt að binda enda á stríðið á Gaza á einum degi

Það væri vel hægt að binda enda á átökin á Gaza á einum degi með því að sleppa gíslunum sem Hamas hefur í haldi og samtökin leggi niður vopn. Sú ákvörðun yfirvalda í Ísrael að ráðast inn á Vesturbakkann með svipuðum hætti og inn í Gaza er tekin, því þar leynast Hamasliðar. Þetta segir Birgir Þórainsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnmála- og öryggisnefndar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.

Birgir segist aðspurður um hvers vegna yfirvöld í Ísrael ætli sér að taka yfir Vesturbakkann að þar leynist Hamasliðar og því sé Vesturbakkinn einnig skotmark, en fram hefur komið í erlendum fjölmiðlum að Hamasliðar á Gaza hafi hvatt liðsmenn sína á Vesturbakkanum að gera hryðjuverkaárásir gegn Ísrael.

Hamas verða að skila gíslunum

Birgir segir ástandið á Gaza vera algerlega hörmuleg. Þar hafi orðið mikið mannfall undanfarna mánuði og allt í rjúkandi rúst. Hann sagði að lausn á ástandinu væri möguleg ef ákveðin skref yrðu tekin. „Hægt væri að binda enda á átökin á Gaza á einum degi ef Hamas myndi sleppa þeim gíslum sem þeir hafa í haldi og afhenda þá til Ísraels, auk þess að leggja niður vopn,“ sagði Birgir. Hann benti á að slíkt skref myndi opna leiðina fyrir friðarviðræður og hugsanlegan varanlegan frið.

Óttast að Ísrael muni gera út af við samtökin

Birgir sagði þó að það væri ólíklegt að Hamas myndi ganga að slíkum skilyrðum þar sem þeir óttast að Ísrael muni beita hernaðarlegum krafti til að gera út af við samtökin, um leið og þeir leggi niður vopnin.

Mótmæli í Palestínu gegn Hamas

Þá sagði Birgir að það væri ekki svo að allur almenningur í Palestínu standi með Hamas. Birgir benti á að það hafi verið mótmæli innan Palestínu gegn Hamas, en að þessi mótmæli fái litla sem enga athygli í alþjóðlegum fjölmiðlum. Hann taldi það mikilvægt að þessi sjónarmið kæmu betur fram í umræðunni til að sýna mismunandi skoðanir á meðal Palestínumanna.

Alþjóðasamfélagið þarf að þrýsta á báða aðila að ná samkomulagi

Birgir segir mjög nauðsynlegt að alþjóðasamfélagið bregðist við stöðunni í Miðausturlöndum með því að auka þrýsting á báða aðila til að ná samkomulagi. Hann sagði að ef ekki yrði gripið til aðgerða gæti ástandið orðið enn alvarlegra.

Daglegar árásir Hesbolla á Ísrael

Þá ræddi Birgir einnig daglegar árásir Hesbolla á Ísrael. Hann lýsti yfir áhyggjum af því hvernig ástandið gæti þróast enn frekar, þar sem spennan á milli Írans og Ísraels haldi áfram að vaxa. Aukin spenna gæti haft víðtækar afleiðingar, ekki aðeins fyrir svæðið heldur einnig fyrir alþjóðasamfélagið.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila