Hætta á að Ísland missi vatnsauðlindirnar undir erlend yfirráð

Það er mikil hætta á að erlendir auðmenn og vogunarsjóðir sölsi undir sig vatnsauðlindir þjóðarinnar ef ekkert verður að gert. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ögmundar Jónassonar fyrrverandi ráðherra í viðtali Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpsstjóra og Péturs Gunnlaugssonar.

Það vakti athygli á dögunum að Jón Ólafsson kaupsýslumaður seldi erlendum fjárfestum stóran hlut í fyrirtækinu Icelandic Water Holdings. Ögmundur ritaði grein á vefsvæði sínu um málið sem lesa má með því að smella hér.

Ögmundur segir aðspurður hvort Íslendingar séu að missa frá sér vatnsauðlindirnar að fyrr á þessu ári hafi einmitt komið upp umræða um sölu jarðarinnar Horns í Borgarfirði.

„Mér er sagt að þar sé mikil vatnsuppspretta og jörðina keyptu kanadísk hjón. Þar rétt við er jörðin Indriðastaðir og þar hafa verið miklar deilur um aðgang sumarbústaðaeigenda að vatni þannig þetta skiptir máli. Þetta er smám saman að gerast og þetta getur undið upp á sig og þróunin getur orðið örari og þá er þetta allt farið“ segir Ögmundur.

Hann segir að í þeim tilfellum þegar um jarðarkaup sé að ræða með náttúruauðlindum skipti máli hvernig lagaumhverfið sé, bæði hvað varðar skipulag og hvaða skorður ríkið geti sett við nýtingu auðlindanna. Ríkið og sveitarfélög eigi að geta sett skorður hvað varðar nýtingu.

„en það eru bara takmörk fyrir því líka því heimurinn er að verða sífellt alþjóðavæddari þar sem regluverkið allt er í þágu markaðar og markaðshagsmuna. Við þekkjum það að innan ESB dugar ekki að setja reglur um kaup sem hamla þegnum innan ESB að kaupa jarðir á Íslandi. Við getum sett reglur um þá sem eru utan ESB og þannig er skipulagsvaldinu settar ákveðnar skorður. Það er hið alþjóðlega kapital sem er byrjað að setja reglurnar “ segir Ögmundur.

Lögin um nýtingu auðlinda frá 1998 mjög slæm

Ögmundur bendir á að það sé af sem áður var þegar menn töldu sig vera að verja eignarrétt bænda og rétt þeirra til þess að hafa aðgang að vatni.

„við erum kominn langan veg frá því þar sem bóndinn og bændafólkið þarf að hafa aðgang að vatni til að nýta til bústarfa og eigin neyslu. Við erum komin yfir í heim sem er að horfa til stórfelldra fjárfestinga í vatni og eignarhaldi á auðlind sem vatnið er og á eftir að verða í mun ríkara mæli en verið hefur“segir Ögmundur.

Hann segir að lög um rannsóknir og nýtinga auðlinda í jörðu sem sett voru árið 1998 séu ein verstu lög sem sett hafi verið.

„þar er sagt að eignarhaldi á landi eigi að fylgja öll verðmæti í jörðu hvaða nafni sem þau kallast. Síðan býr skipulagsvaldið til önnur lög sem gerir ráð fyrir að séu nýtt meira af vatni en 70 lítrar á sekúndu þurfi að sækja um leyfi. En þegar magnið sem mörkin eru sett við er margfaldað og reiknað út magnið á sólarhring þá nemur það sex milljónum og fjörutíu og átta þúsund lítrum sem er það magn sem sæmileg átöppunarverksmiðja þarf hefði ég haldið. Þannig ef þú kemst í þessar uppsprettur þá ertu með mikinn auð á hendi “ segir Ögmundur.

Aðspurður um hvernig hann telji að hægt sé að koma í veg fyrir að vatnsauðlindirnar endi allar í höndum erlendra fjárfesta segir Ögmundur að það væri hægt að setja lög sem kveða á um að þeir einir sem megi fjárfesta sem hafi íslenskt ríkisfang.

Hlusta má á nánari umfjöllun um málið í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila