Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna þess að nú hafa 13 milljónir rúmmetra af kviku safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi en það eru neðri mörk þess magns sem talið sé að geti leitt til eldgoss.
Hættumatskort Veðurstofu Íslands vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga hefur í ljósi þess verið uppfært og mun gilda til 23. júlí 2024 kl. 15:00, að öllu óbreyttu en kortið má sjá hér neðst í fréttinni. Nýjustu greiningar á því hvernig staðsetning gosopnunar hefur þróast í síðustu eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni benda til þess að gosvirknin færist sunnar og nær Grindavík með hverjum atburði. Með hliðsjón af þessum greiningum og ef tekið er tillit til þess að frá því í nóvember 2023 hafa jarðhræringarnar valdið umtalsverðum sprunguhreyfingum innan Grindavíkur, er hætta vegna gosopnunar, hraunflæðis og gasmengunar nú metin ,,töluverð“ en var áður ,,nokkur“ innan svæðis 4 (Grindavík) sem er sambærilegt mati á hættu innan svæðis 3. Kvikusöfnun undir Svartsengi er nokkuð stöðug síðustu tvær vikur. Líkur eru taldar á öðru kvikuhlaupi og/eða eldgosi á næstu þremur til fjórum vikum.
Eldgosið sem hófst miðvikudaginn 29. maí sl. lauk þann 22. júní sl. Gosið stóð yfir í 24 daga og var fimmta eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023. Jafnframt er hraunbreiðan sem myndaðist í síðasta gosi sú stærsta að rúmmáli og flatarmáli. Hraði landriss er nú meiri en fyrir gosið 29. maí sl. Talið er að um 13-19 milljón rúmmetrar hafi farið úr kvikuhólfinu þegar eldgos hófst 29. maí sl. Líkur eru taldar á öðru kvikuhlaupi og/eða eldgosi á næstu vikum og mánuðum. Aðlögunargögn sýna að landris heldur áfram á svipuðum hraða síðustu daga.
Aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara. Þá geta hættur leynst utan merktra hættusvæða.
Starfsemi er í Bláa lóninu og hjá Northern Light Inn að höfðu samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum. Á starfssvæði Bláa Lónsins er nú þéttriðið net gasmæla. Þá er veðurstöð staðsett á einni bygginu Bláa Lónsins. Eftirlit og viðbagð við hugsanlegri gasmengun er nú með allt öðrum hætti en áður hefur verið á starfssvæði Bláa Lónsins. Fulltrúar fyrirtækjanna sitja fundi aðgerðarstjórnar og vettvangsstjórnar. Fylgjast þarf með opnunartímum á heimasíðum fyrirtækjanna. Þar getur þurft að rýma með skömmum fyrirvara en fyrirtækin starfa inn á skilgreindu hættusvæði Veðurstofu Íslands.
Umferð til og frá Bláa Lóninu og Northern Light Inn er um Grindavíkurveg en tekist hefur að koma á vegtengingu þaðan inn á bílastæði fyrirtækjanna.
Viðbragðsaðilar, hópur vísindamanna og einstaklingar á vegum Blaðamannafélags Íslands, með vísan til samkomulags félagsins við lögreglustjórann á Suðurnesjum, er heimilt að fara inn fyrir lokunarpósta við Nesveg, Bláalónsveg og Suðurstrandarveg. Vakin er athygli á því að inn á merkt vinnusvæði fara menn ekki nema með samþykki þeirra sem stjórna þar aðgerðum. Á hættustundu er lögreglustjóra heimilt að vísa á brott eða fjarlægja fólk af hættusvæði.
Þeir sem eiga erindi inn á hættusvæði er bent á að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vefsíðu Umhverfisstofnunar, á slóðinni: https://loftgaedi.is/ Þar eru jafnframt góðar leiðbeiningar. Bent er á upplýsingar á vefsíðu Landlæknisembættisins, á slóðinni: https://island.is/eldgos-heilsa og vefsíðu Vinnueftirlitsins, á slóðinni: https://vinnueftirlitid.is/
Frekari upplýsingar:
- Íbúar, starfsmenn og gestir dvelja inn á hættusvæði á eigin ábyrgð. Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.
- Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik. Lögreglustjóri mælir alls ekki með því að íbúar dvelji í bænum.
- Jarðsprungur eru víða í og við bæinn og sprungur geta opnast án fyrirvara. Hætta er talin mjög mikil á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum.
- Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi sem felast m.a. í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun. Þá hafa sprungur verið girtar af.
- Opin svæði í og við Grindavík hafa ekki verið skoðuð sérstaklega. Fólk haldi sig við götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði.
- Grindavík er lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum Grindavíkurbæjar, fyrirtækja, verktökum og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa. Fjölmiðlafólk hefur heimild til að fara inn í bæinn með sama hætti og íbúar og starfsmenn fyrirtækja.
- Gosstöðvarnar og hraunið sem runnið hefur er ekki aðgengilegt fyrir ferðamenn en aðstaða til að leggja ökutækjum eru ekki fyrir hendi á og við Grindavíkurveg við núverandi aðstæður.
Framkvæmdanefnd fer með stjórn, skipulag og framkvæmd verkefna sem hér segir:
- Starfrækslu þjónustuteyma sem samþætta þjónustu fyrir íbúa Grindavíkurbæjar, m.a. þegar kemur að skóla- og frístundastarfi, félagsþjónustu, barnaverndarþjónustu, þjónustu við eldra fólk, fatlað fólk og aðra viðkvæma hópa og stuðningi á sviði húsnæðis- og vinnumarkaðsmála. Verkefni þjónustuteyma eru m.a. að vinna tillögur og áætlanir um stuðning við íbúana og eiga samráð við móttökusveitarfélög, stjórnvöld og aðra aðila um þjónustu við þá.
- Töku ákvarðana um rekstur þjónustumiðstöðvar fyrir íbúa Grindavíkurbæjar og starfrækslu hennar eftir atvikum.
- Gerð áhættumats fyrir þéttbýli í Grindavíkurbæ í samvinnu við ríkislögreglustjóra.
- Yfirumsjón með framkvæmd nauðsynlegra viðgerða til að tryggja virkni, rekstur og afhendingaröryggi innviða, eftir því sem við á og fellur undir ábyrgðarsvið Grindavíkurbæjar.
- Könnun á jarðvegi.
- Yfirumsjón með framkvæmd nauðsynlegra viðgerða á götum, stígum og opnum svæðum sem Grindavíkurbær er ábyrgur fyrir.
- Yfirumsjón með vernd lausafjármuna í Grindavíkurbæ eftir því sem við á, að mati framkvæmdanefndarinnar.
- Framkvæmd aðgangsstýringar í Grindavíkurbæ í samvinnu við lögreglu.
- Upplýsingamiðlun til íbúa Grindavíkurbæjar og hagaðila um stöðu mála og framgang verkefna sem nefndin sinnir.
Enn eru hættur á svæðinu og aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara. Þá geta hættur leynst utan merktra svæða.
Lokunarpóstar eru við Grindavíkurveg, Bláalónsveg, Nesveg og Suðurstrandarveg. Flóttaleiðir frá Grindavík eru um Suðurstrandarveg, Nesveg, Bláalónsveg og eftir atvikum um Grindavíkurveg. Flóttaleiðir frá Bláa Lóninu eru um Bláalónsveg og Grindavíkurveg. Arfadalsvíkurvegur er lokaður einbreiður malarvegur sem getur nýst ef til rýmingar kemur.
Til að vekja athygli fólks á aðsteðjandi hættum hafa verið settar upp þrjár viðvörunarflautur í Grindavík. Þá er ein slík við Bláa lónið og önnur við HS orku í Svartsengi. Þær hafa verið notaðar með góðum árangri.
Fáir Grindvíkingar kjósa að dvelja í bænum næturlangt. Lögreglustjóri mælir alls ekki með því og getur ekki ábyrgst öryggi þeirra við núverandi aðstæður. Íbúar og þeir sem eiga erindi til Grindavíkur og vilja aka Grindavíkurveg þurfa að aka inn á Bláalónsveg að Nesvegi til Grindavíkur.
Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík og lögregla og slökkvilið sinna lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur. Þá er sjúkrabíll staðsettur í Grindavík alla daga á dagtíma.
Gagnlegar upplýsingar eru á heimasíðu Grindavíkurbæjar á slóðinni https://grindavik.is/ þá er bent á heimasíðu Veðurstofu Íslands á slóðinni www.vedur.is og heimasíðu almannavarna á slóðinni www.almannavarnir.is