
Arnþrúður Karlsdóttir ræddi við Höllu Hrund Logadóttur, þingmann Framsóknarflokksins og fyrrverandi orkumálastjóra í Síðdegisútvarpinu um innviði, eignarhald á auðlindum og framtíð orkunýtingar á Íslandi. Halla sagði að styrkur Íslands hefði hingað til falist í sameiginlegu eignarhaldi og ábyrgri uppbyggingu en að þeirri stöðu væri nú ógnað af skorti á langtímaplönum og auknu hlutverki erlendra fjárfesta í orkutengdri starfsemi. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
Langtímasýn í orkumálum vantar
Í þættinum kom fram að Ísland hefði notið mikils ávinnings af rafvæðingu og jarðhitavæðingu fyrri kynslóða sem tryggt hefði lægra og stöðugra orkuverð en víða annars staðar í Evrópu. Halla taldi brýnt að stjórnvöld haldi sig við þá sýn með markvissri stefnu um framtíðarnýtingu auðlinda, svo sem jarðhita, vatnsafls og vindorku og móta skýra langtímaáætlun um hvernig orkuöflun og orkuskipti yrðu þróuð.
Erlendir fjárfestar með vaxandi hlut
Halla benti á að í mörgum vindorkuverkefnum, sem væru um 40 talsins, væru erlendir fjárfestar orðnir meirihlutaeigendur. Hún sagði að þjóðin hefði aldrei átt raunverulegt samtal um slíka breytingu á eignarhaldi orkuauðlinda og varaði við því að vegna þessa væri hætta á að missa arðinn af auðlindunum úr landi.
Nauðsynlegt að verja arð þjóðarinnar
Í umfjölluninni var rifjað upp hvernig fyrri kynslóðir tóku meðvitaðar ákvarðanir um að tryggja eignarhald vatnsréttinda og raforku til að arðurinn rynni til samfélagsins. Halla sagði mikilvægt að sú stefna héldi áfram þar sem orkuinnviðir væru hornsteinn atvinnulífs og almennrar velferðar.
Þörf á frekari kortlagningu auðlinda
Í þættinum var bent á að Ísland þyrfti að leggja aukið fjármagn og mannafla í að kortleggja betur jarðhita, málma á landgrunni og möguleika á nýtingu sjávar og úrgangs til framleiðslu á grænu eldsneyti. Slíkt væri forsenda þess að þjóðin gæti tekið upplýstar ákvarðanir um nýtingu og vernd auðlindanna til framtíðar.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan.
