Halla Tómasdóttir í símatíma – Aþjóðavæðingin, hnignun samfélagsins og vopnakaup

Í símatíma í dag tók Arnþrúður Karlsdóttir á móti Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda og var hlustendum gefinn kostur á að hringja inn í þáttinn og bera fram spurningar fyrir Höllu. Áberandi var að hlustendur vildu ræða utanríkismál og var Halla spurð hvort hún teldi að forseti geti breytt þeirri hnignun sem hafi orðið í samfélaginu í skjóli alþjóðavæðingar, feminisma og stefnu í útlendingamálum og hvort forseti geti gefið þeim orð í eyra sem beri ábyrgð á hnignunni og þannig varið unga fólkið. Halla Sagðist vera talsmaður friðar.

Þá fékk Halla spurningu um hvort forseti geti talað ráðamenn ofan af ákvörðunum sem þeir oftast taki á bak við tjöldin og án aðkomu Alþingis en í því sambandi nefndi hlustandinn vopnakaup fyrir Úkraínu, lokun sendiráðs Rússlands á Íslandi og þátttöku utanríkisráðherra í mótmælum í Georgíu. Halla svaraði því til að á ferðum hennar um landið hefði fólk verið að ræða mjög mikið um vopnakaupin fyrir Úkraínu og segir Halla að það sé ljóst að fólk sé mjög á móti því að keypt séu vopn til þess að nota í stríði úti í heimi.

Halla talsmaður friðar

Segir Halla að verði hún forseti verði hún talsmaður friðar enda sé hún það einnig í dag. Í vopnakaupamálinu segist Halla heyra mikinn samhljóm meðal þjóðarinnar að þjóðin vilji ekki taka þátt í slíku athæfi. Halla segir að vel hefði verið hægt að semja um aðrar lausnir en þær að fjármagna vopnakaup. Segir Halla að hún þekki vel til alþjóðasamninga og það sé alltaf svigrúm til þess að semja um aðrar lausnir sem hefði verið æskilegt í þessu tilfelli.

Þjóðin þarf að koma meira að ákvörðunum í stórum málum

Í þættinum var Halla einnig spurð út í beint lýðræði. Halla segist opin fyrir slíkum hugmyndum en henni hugnist þó ekki þó sú orðræða að senda ætti öll mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og bendir á að það gæti valdið ákveðinni sundrungu. Betra væri að þjóðin hefði meiri aðkomu að málum áður en mál ná svo langt að verða að lagafrumvörpum og fengi þannig á ákveðinn hátt að taka þátt í að móta stefnu í þeim málum sem skipta þjóðina máli til framtíðar.

Hlusta má á þessar spurningar og fleiri sem og svör Höllu í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila