Halla Tómasdóttir: Myndi vísa sölu Landsvirkjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu

Ef lög um sölu Landsvirkjunar kæmi á borð Höllu Tómasdóttur í embætti forseta til staðfestingar myndi hún vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta kom fram í máli Höllu í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Halla segir að hún sé alveg afdráttarlaus með þá skoðun að þegar kemur að svo mikilvægum innviðum eins og Landsvirkjun sem varði í rauninni getu framtíðarkynslóða til þess að upplifa hagvöxt og hagnað á sínum líftíma að þá eigi forseti tvímælalaust að gefa þjóðinni úrslitavaldið þegar kemur að slíku.

Hefur heyrt á fólki víða að það hafi áhyggjur af þessu

Hún segist ekki hafa nokkra trú á nokkur myndi mæla fyrir öðru því svo miklvægir séu þessir innviðir þjóðinni og segir Halla að rétt sé að hún taki af allan vafa um málið og að hún myndi vísa því til þjóðarinnar. Halla segir að hún hafi ekki heyrt um að áform séu uppi um að selja Landsvirkjun en hún hafi hins vegar heyrt það á fólki sem hún hefur undanfarið hitt á förnum vegi að fólk hafi af þessu nokkrar áhyggjur.

Nauðsynlegt að hafa sterka framtíðarstefnu í orkumálum

Hvað varðar auðlindamál almennt segir Halla að hún myndi vilja að það væri meiri framtíðarsýn þegar kemur að auðlindum landsins og ákvarðanatökur sem þær varða. Nú sé fyrirkomulagið þanig að alltaf sé verið að taka eitt og eitt mál fyrir í einu en það væri vilji Höllu að það yrði mun betra fyrirkomulag að hafa sterka framtíðarstefnu og sýn í málaflokknum.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila