Hannes: Lausnin í Úkraínudeilunni gæti falist í EES aðild og íbúar umdeildra héraða fái að kjósa hvoru landinu þeir vilji tilheyra

Lausn í Úkraínudeilunni felst fyrst og fremst í því að gera vopnahlé og gera samninga sem ekki ögrar Rússum um of. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.

Hannes segir að meðal þess sem hægt væri að gera væri að bjóða Úkraínu að ganga í EES í stað Evrópusambandsins, þannig yrði Rússum ekki ögrað.

“ ég er reyndar hissa á að enginn hafi nefnt þetta sem lausn, ég held að eðlilegast væri að Úkraína sem vill vera eins og vestrænt ríki gangi í EES með Noregi, Íslandi, Lichtenstein og í öllum grundvallaratriðum Sviss, þá geta þeir verið hluti af evrópska markaðnum án þess að þurfa að vera hluti af því pólitíska bandalagi sem Evrópusambandið er“.

Þá segir Hannes réttast að íbúar í þeim héruðum Úkraínu sem deilt er um fái sjálfir að ráða því hverjum þeim tilheyra.

„síðan er eðlilegast að íbúar þeirra héraða sem verið er að deila um fái að ráða því sjálfur með kosningum hvoru landinu þeir vilji tilheyra og það yrði að sjálfsögðu að vera gott alþjóðlegt eftirlit með þeim kosningum en við höfum dæmi um þetta frá 1920“ segir Hannes.

Þannig að mín lausn er þessi: Vopnahlé, kosningar í heruðunum hverjum þau vilji tilheyra og innganga Úkraínu í EES, ásamt því að sjálfsögðu að við verðum að aðstoða Úkraínu að rétta úr kútnum eftir stríðið alveg eins og þegar Bandaríkjamenn aðstoðuðu Evrópu eftir stríð.

Þöggun beitt eftir hentugleikum vissra hópa

Í þættinum ræddi Hannes einnig um þöggunar og útilokunarmenninguna sem hann segir að beitt sé eftir hentugleikum ákveðinna hagsmunahópa. Hannes bendir á að á meðan ekki megi gagnrýna ákveðna hópa þyki þeim sem tilheyra þeim hópum í góðu lagi að úthrópa vissa hópa sem þeim sjálfum sé ekki að skapi.

„sá hópur sem hatur virðist aðallega beinast að á okkar tímum eru hvítir vel stæðir hægrisinnaðir karlar, það virðist mega segja hvað sem er um þá en það má ekkert segja um neina aðra minnihlutahópa, mér finnst það svolítið einkennilegt og síðan eru margvísleg umræðuefni bönnuð í háskólum sem mér finnst mjög ískyggilegt“

Hannes tók dæmi um umræðu sem ekki virðist mega ræða

„nú er ég ekki þeirrar skoðunar persónulega að hugtakið greind sé mjög merkingarbært og held að hún mæli ekkert annað en það sem greindarmælingar mæla en mér finnst sjálfsagt að leyfa umræður um hugtakið en þær eru ekki leyfðar ef í ljós kemur að einn kynþáttur sé talinn ógreindari en einhver aðrir kynþáttur, annað dæmi er að það má aldrei efast um þróunaraðstoð þó að við sjáum það vel þegar við horfum yfir heiminn að valið er um þróun án aðstoðar eins og í Hong Kong, Singapore, Suður Kóreu og Taiwan, hins vegar aðstoð án þróunar eins og í Grænhöfðaeyjum og Tanzaníu, þetta má ekki ræða og heldur ekki koma með kenningar á launamun kynjanna“segir Hannes.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila