Hart tekist á um gagnaleka og meintar ærumeiðingar

Heiða Björg Hilmisdóttir varaformaður Samfylkingarinnar og Gunnar Kristinn Þórðarson formaður Félags umgengnisforeldra.

Gunnar Kristinn Þórðarson stjórnsýslufræðingur og formaður Félags umgengnisforeldra, og Heiða Björg Hilmisdóttir mættust í morgunútvarpinu í morgun þar sem þau tókust á um Daddytoo gagnalekann svokallaða sem mikið hefur verið til umræðu í netheimum. Forsaga málsins er sú að gögnum af fésbókarhópi femínista var lekið á netið en þar má meðal annars sjá skjáskot af ummælum, sem gætu talist ærumeiðandi í garð forsvarsmanna feðrahreyfinga sem berjast fyrir úrbótum í umgengnismálum. Þá hafa Halla Gunnarsdóttir ráðgjafi forsætisráðherra og Heiða Björg tekið þátt í umræðunni inni á hópnum, auk nokkurra fjölmiðlakvenna. Gunnar sendi í framhaldinu forseta Alþingis og stjórnskipunar og eftirlitsnefnd erindi vegna framgöngu Heiðu og Höllu í umræðunum sem hann segir taka undir þá umræðu sem þar hefur farið fram. Heiða sagði þættinum að hennar skoðun væri sú að það hafi verið ljótur leikur að leka skjáskotunum og fullyrti að með því væri verið að birta frásagnir ofbeldisþolenda. Gunnar benti aftur á móti á að í umræðunum inni á síðunni hefðu verið birt skjáskot úr Daddytoo hópnum, sem einnig væru frásagnir ofbeldisþolenda. Óhætt er að segja að umræðurnar í þættinum hafi verið snarpar og hart tekist á um birtingu gagnanna og þau ummæli sem fallið hafa inni á fésbókarhópi femínista. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Deila