Hatursorðræða er ekki skilgreind í íslenskum lögum. -engin þörf á aðgerðaáætlun-

Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður

Þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur sett fram er óþörf. Að auki er engin skilgreining í íslenskum lögum um hvað hatursorðræða er og í hverju hún felst. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ernu Ýrar Öldudóttur blaðamanns í síðdegisútvarpinu í dag en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Aðgerðirnar sem eru margvíslegar og eru sagðar ætlaðar til þess að bæta stöðu og réttindi fólks sem sé í viðkvæmri stöðu fyrir því að verða fyrir hatursorðræðu, til hagsbóta fyrir samfélagið allt eins og segir um málið í tillögunni.

Erna sem hefur sent Alþingi umsögn vegna málsins segist hafa sent umsögnina fyrst og fremst vegna þess að tjáningarfrelsið sem sé stjórnarskrárvarið sé hornsteinn vestrænnar menningar og lýðræðis.

Hún segir að það sé ekki að sjá að samfélagið sé svo plagað af hatursorðræðu að það sé einhver brýn þörf fyrir sérstaka aðgerðaráætlun af þessu tagi. Í umsögn sinni bendir Erna Ýr á að þar sem til standi með þessu að skerða tjáningar og skoðanafrelsi borgaranna þurfi að liggja fyrir brýnir almannahagsmunir, ekki hafi verið færð rök fyrir því hverjir þeir hagsmunir séu eða af hverju, auk þess sem hatursorðræða hafi ekki verið skilgreind.

Erna segir að á fundi sem haldinn var í Hörpunni þar sem farið var yfir málið hafi verið sérfræðingur á staðnum sem hafi farið yfir það hvernig hatursorðræða sé skilgreind erlendis og hjá alþjóðastofnunum en það hafi ekki verið nein samræmd skilgreining á því, heldur hafi hugtakið verið mjög opið og óljóst.

Þá bendir Erna að upphaf reglna sem eiga að sporna við hatursorðræðu hafi verið eftir seinni heimsstyrjöldina til þess til dæmis að það endurtæki sig hvernig nasistar komu fram við þegna sína með hatursorðræðu, til dæmis auglýsingaherferðum gegn gyðingum. Þannig hafi reglur sem þessar verið settar til þess að stöðva stjórnvöld í því að ofsækja almenna borgara.

Eitt af því sem aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu gerir ráð fyrir er að opinberir starfsmenn sitji fræðslunámsskeið um hatursorðræðu og hefur forsætisráðherra sagt að því verði fylgt fast eftir og fylgst verði með mætingunni með sérstöku mælaborði.

Erna segir að þessi nálgun Katrínar sé meira í líkingu við það sem gerist í alræðisríkjum en ekki lýðræðisríkjum og vonar að opinberir starfsmenn spyrni við fótum og ræði við sitt stéttarfélag ef það á að þvinga þá gegn sínum vilja til þess að sitja slíkt námsskeið.

„Mér finnst þetta svívirða að leggja þetta til því eins og ég sagði áðan þá var þetta upphaflega sett fram til þess að hafa hemil á stjórnvöldum en núna ætlar forsætisráðherra að snúa þessu á haus og nota þetta til þess að ráðast gegn borgurunum. Ég sé þetta bara sem árás því það er engin heimild fyrir þessu, hvorki í stjórnarskrá eða mannréttindasáttmálum, það er búið að snúa þessu við og þau eru ófær um að skilgreina hvað sé hatursorðræða“ segir Erna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila