Hefja byggingu brúar yfir Sæbraut í þessum mánuði

Vinna við  tímabundna göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut hefst nú í ágúst og er stefnt að því að hún verði opnuð í apríl 2025. Brúin tengist Snekkjuvogi/Barðavogi í vestri og Tranavogi/Dugguvogi í austri. Skiltabrúm verður komið fyrir sitt hvoru megin við hana til að varna því að ökutæki rekist upp í brúna verður. Brúin mun þjóna hlutverki sínu þar til Sæbraut verður sett í stokk.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Hjálmur Sigurðsson, framkvæmdastjóri mannvirkja hjá Ístaki, skrifuðu í júlí undir verksamning vegna þessarar göngu- og hjólabrúar yfir Sæbraut í Reykjavík. 

Verkið er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum, sem gerður var 2019 milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu.

Skiltabrýr verða settar upp til varnar göngubrúnni

Samkvæmt reglugerð er hámarkshæð ökutækja 4,2 metrar. Skilabrýrnar eru lægri en sjálf göngubrúin þannig að of há ökutæki munu rekast í skiltabrúna.

Fríhæð undir skilabrú verður 5,5 metrar og fríhæð undir viðvörunarslá verður 5,2 metrar. Vegagerðin og Reykjavíkurborg biðla til verktaka og flutningsfyrirtækja að kynna þessar hæðartakmarkanir fyrir sínu starfsfólki.

Full ástæða er til þess að hvetja ökumenn stærri bíla til þess að setja niður palla á vörubílum, pakka saman bílkrönum og svo framvegis, þannig að ekki komi til óhappa vegna þessara hæðartakmarkana.

Verkfræðistofan Verkís hannaði mannvirkið. Ístak mun sjá um framkvæmdir. Eftirlit og umsjón með verkinu hefur VBV verkfræðistofa. Vegagerðin hefur umsjón með verkinu fyrir hönd verkkaupa.

Bætir umferðaröryggi

Brúin mun bæta umferðaröryggi verulega fyrir vegfarendur milli hinnar nýju Vogabyggðar og Vogahverfis, ekki síst fyrir skólabörn. Hún verður yfirbyggð, með lyftu og tröppum og verður áhersla á jákvæða upplifun vegfarenda og að innra rými verði aðlaðandi. 

Góð lýsing verður við brúna. Framkvæmdin er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila