Heilbrigðisráðherra úthlutar styrkjum til fjölbreyttra gæða- og nýsköpunarverkefna

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 55 milljónum króna til 18 verkefna á sviði gæða- og nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Verkefnin hafa öll að markmiði að bæta þjónustu við notendur og stuðla að greiðara aðgengi með stafrænum lausnum.

Hæsta styrkinn hlaut verkefni sem nefnist: : Bráðafjarheilbrigðismiðstöð – fjarskiptalæknir

Verkefnið nær utan um verkefni bráðafjarheilbrigðismiðstöðvar sem sinnir:

1) læknisfræðilegri stjórnun og ráðgjöf fyrir sjúkraflutninga,

2) bráðalæknisráðgjöf fyrir heilsugæslu í dreifbýli,

3) fjarheilbrigðisþjónustu fyrir sjófarendur, vettvangsliða og björgunarsveitir,

4) faglegrar ráðgjafar við Neyðarlínu, meðal annars til ákvörðunar um notkun sjúkraflugs og þyrlu. Fjarskiptalæknir eykur aðgengi að sérfræðiþjónustu bráðalæknis sem eykur gæði og þjónustu við sjúklinga í nærumhverfi þeirra, þegar bráð veikindi eða slys verða. Sömuleiðis veitir aukið aðgengi að bráðalæknisfræðilegri ráðgjöf stuðning við heilbrigðisþjónustu í dreifðari byggðum og ætla má að verkefnið styðji við mönnun lækna þar sem margir læknar veigra sér við að standa ein í bráðum aðstæðum þar sem úrræði og aðgengi að ráðgjöf utan dagvinnutíma hefur verið mjög takmarkað hingað til.

Gæða- og nýsköpunarstyrkir til verkefna í heilbrigðisþjónustu eru veittir árlega. Í ár var annars vegar lögð áhersla á verkefni sem stuðla að jafnari aðgengi almennings um land allt að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, líkt og fjallað er um í aðgerð A5 í stefnumótandi byggðaáætlun til ársins 2036 og hins vegar verkefni til að hrinda í framkvæmd tillögum viðbragðsteymis heilbrigðisráðuneytisins um bráðaþjónustu á landsvísu. Vandaðar umsóknir bárust um styrki til fjölbreyttra verkefna. Við mat á þeim var m.a. horft til þess að verkefnin hefðu skýran ávinning fyrir heilbrigðisþjónustuna og þann hóp sem þjónustan beinist að. Í meðfylgjandi yfirliti eru upplýsingar um verkefnin sem hlutu styrk og í hverju þau felast.

Smelltu hér til þess að skoða lista yfir verkefnin

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila