Heilsaði Fidel Castro sem var með skammbyssuna í vasanum

Gunnar Kr. Gunnarsson fyrrverandi Íslandsmeistari í skák og fótbolta hefur marga fjöruna sopið í gegnum tíðina enda er skákferill hans orðinn mjög langur og Gunnar kominn á tíræðisaldur. Það hefur því margt drifið á daga hans en í þættinum við Skákborðið í dag rifjaði hann upp í viðtali við Kristján Örn Elíasson þegar hann fór að keppa í skák á Kúbu.

Gunnar segir að það hafi verið mjög gaman á Kúbu, landið fallegt og fólkið þar viðkunnanlegt. Það hafi þó verið toppurinn á ferðinni þegar hann hitti Kúbuleiðtogann sjálfan Fidel Castro.

Castro með skammbyssuna í jakkavasanum

Gunnar segir að það hafi farið vel á með þeim félögum og það hafi verið ansi sérstök tilfinning að heilsa Castro sem þá var með skammbyssuna sem glitti í í jakkavasanum og Castro eins og honum var von og vísa við öllu búinn.

Castró gaf honum eftirminnilega gjöf

En það má segja að Castro hafi komið Gunnari mjög skemmtilega á óvart þegar hann leysti Gunnar út með gjöf þegar hann færði honum ösku með forláta taflmönnum og segir Gunnar að þessa öskju eigi hann ennþá og er Gunnar stoltur af þessari glæsilegu gjöf.

Kúba og Ísland gjörólík

Hann segir að þó Kúbumönnum hafi tekist á sínum tíma að flæma ameríska herinn á brott séu þeir enn þarna með litla bækistöð sem sé svolítið eins og lítið skóhorn. Þetta sé ekki ósvipað því svæði sem bandarískir hafa til afnota í Keflavík í dag eftir að varnarliðið hvarf af landi brott. Það sé þó líklega það eina sem Kúba og Ísland eigi sameiginlegt enda löndin gjörólík bæði hvað stjórnarfar, menningu og veðurfar snertir.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila