Úkraínustríðið hefur ekki aðeins haft áhrif á Evrópu heldur hefur það einnig varpað ljósi á vaxandi togstreitu á milli Bandaríkjanna og Kína. Þessi togstreita snýst að miklu leyti um efnahagsleg og hernaðarleg átök á heimsvísu, þar sem þessi tvö stórveldi keppa um yfirráð og áhrif. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hauks Haukssonar fréttamanns í Moskvu en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Heimsmálunum sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.
Úkraína notuð sem verkfæri í átökum við Rússland
Haukur bendir á að Bandaríkin hafi verið í fararbroddi í stuðningi við Úkraínu gegn Rússlandi, meðal annars með auknum vopnasendingum og fjármagni. Hins vegar sé raunverulegur tilgangur stuðningur Bandaríkjanna í stríðinu hluti af stærri áætlun um að veikja áhrif Kína og Rússlands á alþjóðavettvangi. Það er talið að Bandaríkin hafi átt frumkvæði að því að skapa það sem sumir kalla „proxy stríð“ gegn Rússlandi með því að nýta Úkraínu sem verkfæri í átökum sínum við Rússland.
Kína heldur sér í fjarlægð frá hernaðaríhlutunum
Kína á hinn bóginn, hefur verið að styrkja tengsl sín við Rússland og er talið vera hluti af stærri áætlun um að grafa undan áhrifum Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Kínversk stjórnvöld hafa hins vegar haldið ákveðinni fjarlægð frá beinum hernaðaríhlutunum en hafa samt sem áður tekið afstöðu gegn vesturveldunum í þessu stríði.
Togstreita milli Bandaríkjanna og Kína er hluti af stærri mynd
Þessi togstreita milli Bandaríkjanna og Kína er að mati Hauks ekki aðeins hernaðarleg heldur einnig efnahagsleg. Kína hefur í auknum mæli reynt að ná yfirráðum á sviðum sem áður voru undir áhrifum Bandaríkjanna og það er talið að þessi átök séu hluti af stærri mynd þar sem efnahagslegir hagsmunir eru í húfi. Átökin í Úkraínu hafa því leitt til aukinnar spennu á milli þessara stórvelda, sem bæði keppa um áhrif og völd á alþjóðavettvangi.
Beðið eftir úrslitum forsetakosninganna í USA – Donald Trump talinn koma á friði
Síðan spila komandi forsetakosningar stóra rullu hvernig atburðarrásin þróast því Donald Trump er mótfallinn átökunum í Úkraínu og hefur meðal annars sagt að hann muni byrja strax á að koma á friði verði hann kjörinn forseti á ný.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan