Heimsmálin: Bandaríkjamönnum efnahagsmálin efst í huga í kosingunum – Trump tilkynnir framboð 15.nóvember

Í dag er kosið til þings í Bandaríkjunum og mikil spenna í loftinu. Í þættinum Heimsmálin, fréttir og fréttatengt efni af erlendum vettvangi ræddi Arnþrúður Karlsdóttir við Ásgerði Svavarsdóttur sem búið hefur í 50 ár í Maine í Bandarikjunum um kosningarnar og um möguleg úrslit þeirra.


Ásgerður segir að mikill hugur sé í fólki og nú þegar sé mikill fjöldi eða um 40% búinn að kjósa utankjörfundar en hún er einmitt ein þeirra og fór á kjörstað í gær og kaus. Hún segir að líkleg skýring á þessu mikla hlutfalli utankjörfundaratkvæða sé að í stóru borgunum geti myndast langar raðir á kjördag og því velji fólk frekar að kjósa utankjörfundar. Á hennar svæði sé þó öllu rólegri stemning og yfirleitt ekki raðir á kjörstað á kjördag.

Hún segir að kosningabaráttan hafi verið nokkuð hörð það sé þó misjafnt eftir fylkjum. Í Pensylvaniu sé stjórnmálamaðurinn og sjónvarpsmaðurinn Dr. Oz sem sé í lykil baráttu fyrir öldungadeildarþingið og svo er demókrati þar líka og Trump hefur verið Dr. Oz stoð og stytta í sinni baráttu. Hún segir að í Pensylvaniu sé um mörg atkvæði að berjast og þau atkvæði skipti repúblikana hvað mestu máli í kosningunum. Hún segir repúblikana vera jákvæðir á sigur í Pensylvaniu og eftir því sem hún hafi heyrt á fólki þá séu demókratar frekar á undanhaldi.

Almenningur ósáttur við aðgerðarleysi demókrata

Ástæðan fyrir því að demókratar séu að missa flugið sé aðgerðarleysi þeirra í að taka á mikilvægum málum, það sé til dæmis lítið aðhafst gagnvart verðbólgunni, eldsneytisverðinu og olíunni sem notuð er til húshitunar, hún hafi til dæmis hækkað um helming. Hún segir að demókratar horfi meira til umhverfis og loftslagsmála í stað þess að koma skikki á þau mál sem hafi áhrif á efnahag fólksins. Hún bendir á að ímyndin um Bandaríkin sé sú að alltaf sé nóg til og að matur og bensín sé mjög ódýrt, það sé þó ekki raunin að öll heimili hafi það svo gott.

Vissulega séu sum heimili vel sett en alls ekki öll og hinn venjulegi Bandaríkjamaður sé ekki sá sem tilheyri glansmyndinni. Fólk tali um verðbólguna sem sé farin upp úr öllu valdi og hafi ekki áhuga á að ræða loftslagsmál og hvað þá kjósa um þau.

Umfjöllun fjölmiðla um stríðið í Úkraínu afar mismunandi

Aðspurð um þátttöku Bandaríkjanna í að senda vopn til Úkraínu og hvað almenningi finnist um þá stöðu segir Ásgerður að þá sé það mjög mismunandi hvað fjölmiðlar segi um þessi mál, til dæmis fjalli CNN mjög takmarkað um þessi mál, það sé vissulega talað um stríðið og hvernig ástandið sé í Úkraínu á meðan sjónvarpsstöðin Fox setji fram gagnrýni um vopnasendingar Vesturlanda til Úkraínu, það sé því þannig að fylgjast þurfi með 4-5 fjölmiðlum til þess að geta myndað sér vitræna skoðun á þessum málum.

Trump tilkynnir framboð 15.nóvember

Þá segir Ásgerður að áróður fjölmiðla gegn Trump sé linnulaus og enn sé lítið lát á umfjöllun um árásina á þinghúsið hér um árið. Það er hins vegar að frétta af Trump að hann sé mjög duglegur að hitta fólk og halda fjöldafundi og nú hafi verið gefin út dagsetning á framboðstilkynningu Trump en hann mun lýsa yfir framboð þann 15.nóvember næstkomandi segir Ásgerður.

Á sama tíma kemur út bók eftir Mike Pence þar sem fregnir herma að koma muni fram frásagnir sem settar verði fram til þess að koma höggi á Trump, það sé einmitt þess vegna sem Trump velji þennan dag til þess að lýsa yfir framboði.

Aðspurð um hvernig hún telji að þingkosingarnar fari segir Ásgerður að hún telji að repúblikanar muni hafa betur bæði í öldungadeildinni og fulltrúadeildinni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila