Það vekur sérstaka athygli að engar leyniskyttur voru á vatnstanki á svæðinu þar sem banatilræði gegn Donald Trump var framið. Vatnstankurinn er sá punktur sem hæst stendur á svæðinu og hægt að hafa þar bestu yfirsýnina yfir svæðið. Undirbúningur fyrir fundinn hafði staðið yfir í marga mánuði. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Bjarna Haukssonar þjóðfélagsrýnis í Heimsmálunum en hann var gestur Hauks Haukssonar.
Leyniskyttur ekki sjáanlegar þegar mest á reyndi
Bjarni segir að enn hafi ekki komið fram hver beri ábyrgð á því hvar leyniskyttur hafi verið staðsettar en það muni væntanlega koma fram eftir því sem rannsókn málsins vindur fram næstu daga. Ef allt hefði verið eðlilegt hefði umræddur vatnsturn átt að vera staðsetning númer eitt þegar kæmi að því að setja niður leyniskyttur enda hafi þær mjög gott útsýni yfir allt svæðið eins og það leggur sig frá þeirri staðsetningu. Tilræðismaðurinn sjálfur hafi hins vegar verið á svæði sem hægt væri að skilgreina sem svæði þrjú þegar kemur að staðsetningu leyniskytta. Það hafi verið á þaki 120 metrum frá leyniskyttunni sem felldi hann í kjölfar árásarinnar.
Stigi reistur upp á þak þar sem tilræðismaðurinn hafðist við
Þar sem tilræðismaðurinn var hefði átt að vera leyniskytta í stað tilræðismannsins. Þá bendir Bjarni á að upp á þakið hafi legið stigi og það sé í raun alveg ótrúlegt og í raun út í hött að enginn gæsluaðili hafi verið búinn að gera athugasemdir við að þarna væri stigi sem hver sem er gæti notað til þess að komast upp á þak byggingarinnar.
Undirbúningur fyrir fundinn stóð yfir í marga mánuði
Þá segir Bjarni alveg makalaust í ljósi þess að undirbúningur fyrir fundinn hefði staðið yfir mánuðum saman áður en hann var haldinn að öryggisatriðin hafi ekki verið í betri farvegi en þau hafi verið.
Hlusta má á ítarlegri umræður um málið í spilaranum hér að neðan