Framboð Donalds Trump hefur þurft að gera umfangsmiklar breytingar á kosningaáætlunum sínum eftir að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, dró framboð sitt til baka. Þessi ákvörðun Biden hefur sett kosningateymi Trump í nýja stöðu, þar sem þau þurfa nú að einbeita sér að baráttu við Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna, sem nú er líklegegasti keppinautur Trumps í komandi forsetakosningum. Þetta segir Íris Erlingsdóttir í Minnesota í Bandaríkjunum en hún var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur í Heimsmálunum.
Í þættinum lýsti Íris þeirri áskorun sem kosningateymi Trump stendur frammi fyrir eftir þessar breytingar. Hún benti einnig á hvernig Trump hefur þurft að berjast á mörgum vígstöðvum þegar kemur að andstæðingum sínum. Fjölmiðlar hafi reynt ítrekað að koma höggi á Trump í gegnum tíðina, sem og pólitíska kerfið sem meðal annars hefur verið duglegt að bregða fæti fyrir Trump með alls kyns ákærum og málaferlum.
WHO óttast að Trump verði forseti Bandaríkjanna á ný
Arnþrúður sagði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) uggandi yfir mögulegu kjöri Trumps, þar sem hann hefur dregið Bandaríkin út úr WHO í forsetatíð sinni og gæti hugsanlega slitið tengsl Bandaríkjanna við hana á ný. Trump hefur áður lýst yfir óánægju með WHO og nú er ekki ólíklegt að hann muni afhjúpa ýmislegt misjafnt sem sú stofnun aðhefst að hans mati. Þá sé ekki ólíklegt að Trump íhugi að slíta einnig tengsl við Sameinuðu þjóðirnar, ef hann kemst aftur til valda sagði Íris.
Tim Walz varaforsetaefni Kamölu Harris ákvað að láta sprauta börnin
Í þessu sambandi bendir Íris á að bólusetningar gegn Covid hafi einnig verið mikið umræðuefni í Bandaríkjunum, sérstaklega í Minnesota, þar sem skiptar skoðanir eru um hvort börn eigi að fá Covid-19 bóluefni í fyrirbyggjandi tilgangi. Íris bendir á að Covid-19 hafi aldrei lagst þungt á börn, en þrátt fyrir það hafi Tim Walz varaforsetaefni Kamölu Harris komið að ákvarðanatöku sem skipar fólki að láta bólusetja börn sín.
Málefni innflytjenda eitt af stóru málunum
Aðspurð um hvort málefni ólöglegra innflytjenda verði stóra kosningamálið í komandi kosningum, segir Íris að það hafi verið eitt af stóru málunum áður, og er líklegt að það verði það aftur. Hún bendir á að landamæri Bandaríkjanna séu í rauninni opin og enginn hafi fulla yfirsýn yfir hversu margir ólöglegir innflytjendur hafi komið inn í landið. Þetta ástand hafi valdið miklum vanda í stóru borgunum. Aðspurð um hvort efnahagsmálin séu ofarlega í huga kjósenda segir Íris að það virðist ekki vera að hafa áhrif á kjósendur og margir kjósa eftir vinsældum frambjóðenda fremur en málefnum.
Næstu vikur munu leiða í ljós hvernig Trump og teymi hans aðlaga sig að nýjum aðstæðum og hvort þessi endurskipulagning muni hjálpa honum í baráttunni fyrir forsetaembættinu.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hérað neðan