Heimsmálin: Friðarumleitanir milli Rússlands og Úkraínu verða alltaf erfiðar

Það verður alltaf erfitt að reyna að ná friðarsamningum milli Rússlands og Úkraínu vegna þess að uppi séu þrjú meginefni sem deilt sé um. Þetta segir Hilmar Þór Hilmarsson prófessor við Háskólann á Akureyri en hann var gestur í Heimsmálunum hjá Pétri Gunnlaugssyni.

Deiluefnin þrjú

Hilmar segir að deiluefnin séu eftirfarandi: (1) yfirráð yfir landi sem Rússland hefur innlimað nú þegar og telur að sé hluti af Rússlandi, (2) stöðu Úkraínu að stríði loknu gagnvart ESB og þó sérstaklega aðild að NATO, og (3) skaðabótakröfu sem Úkraína mun án efa gera á Rússland.

Úkraína í NATO hvetur Pútín til að halda stríðinu áfram

Bendir Hilmar á að stöðugar ítrekanir um að Úkraína fari í NATO hvetji Pútin til að halda stríðinu áfram og taka meira af landinu. Stjórnvöld í Rússlandi telja sig nú hafa yfirhöndina á vígvellinum og vilja nýta sér það. Auk þess vill Pútin líklega sjá hver tekur við völdum í Hvítahúsinu og hafa líkur á stjórnaskiptum í Bandaríkjunum nú aukist.

Vesturlönd bera sína ábyrgð á ástandinu

Innrás Rússlands í Úkraínu var ólögleg og hana hafa stjórnvöld á vesturlöndum fordæmt en vesturlönd bera samt sem áður sína ábyrgð á því hvernig komið er fyrir Úkraínu. Nokkur atriði má nefna í þessu sambandi:

Vesturlönd létu Úkraínu afhenda kjarnorkuvopn til Rússlands

1) Vesturlönd sannfærðu Úkraínu árið 1994 með svokölluðu Budapest Memorandum að láta af hendi öll sín kjarnorkuvopn til Rússlands. Þetta var gert þó töluverðar líkur væru á því að Rússland myndi einhvern tíma banka á dyr Úkraínu eins og síðar varð. Kjarnorkuvopn og útbreiðsla þeirra getu ekki talist æskileg en mikið hefði mátt leggja undir til að koma í veg fyrir hörmungarnar í Úkraínu sem því miður virðast eiga eftir að vera enn meiri áður en til friðarsamninga getur komið, eða stríðið stöðvast með „frozen conflict.“ Í viðtali við Newsweek í apríl 2023 lét Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna, þegar Budapest Memorandum var undirritað, hafa eftir sér: „My Nuke Deal To Blame for Russia’s Invasion of Ukraine.“

Aldrei samstaða að hleypa Úkraínu í NATO

2) Á leiðtogafundi NATO í Búkarest í apríl 2008 var ákveðið að Úkraína færi í NATO en landinu var aldrei hleypt inn. Nú 16 árum síðar er Úkraína ekki aðili að NATO og litlar líkur á að svo muni verða á næstunni. Hefði Úkraínu verið hleypt í NATO fljótlega eftir Búkarest fundinn 2008 hefði innrás Rússlands hugsanlega aldrei orðið, þ.e. ef Article 5 guarantee hafði haldið. Leiðtogar Þýskalands og Frakklands lögðust gegn NATO aðild Úkraínu og því má segja að óvarlegt hafi verið að álykta um aðild Úkraínu á Búkarest fundinum í apríl 2008 þar sem ljóst var að engin samstaða var um aðild Úkraínu að NATO. Úkraínu var ekki hleypt í NATO og verður ekki á næstunni, kannski aldrei.

Úkraína á enga möguleika á inngöngu í ESB

3) Nú er talað um að Úkraína fari á næstunni í ESB sem er afar ólíklegt. ESB er komið að fótum fram efnahagslega t.d. með slæmri skuldastöðu sem gerir nánast útilokað að veita Úkraínu aðild vegna þeirra efnahagsskuldbindinga sem fylgja. Refsiaðgerðir gegn Rússlandi hafa komið illa niðri á ESB t.d. er nú nánast enginn hagvöxtur í Þýskalandi. Fram kom að Hilmar starfaði fyrir Alþjóðabankann í Eystrasaltsríkjunum 1999 til 2003, en þau urðu aðilar að ESB árið 2004. Að mati Hilmars á Úkraína enga raunhæfa möguleika á ESB aðild á næstu árum. Tyrkland hefur t.d. verði í aðildarviðræðum við ESB síðan 1999.

Heimurinn er klofinn í máli Úkraínu og Rússlands

4) Í júní s.l. var haldin „friðarráðstefna“ í Sviss þar sem Rússum var ekki boðið að taka þátt og þar með voru engar líkur á friðarsamningum. Þessi ráðstefna staðfesti að heimurinn er klofinn í málinu og við erum engu nær friðarsamkomulagi nú en áður. 160 ríkjum var boðin þátttaka, um 90 mættu en innan við 80 skrifuðu undir ályktun ráðstefnunnar. Samstaða þeirra 160 ríkja sem boðið var náðist ekki og lykil lönd eins og Kína mætti ekki. Indlands ásamt fleiri ríkjum samþykkti ekki ályktun ráðstefnunnar.

Fréttin er hluti af ítarlegri fréttaskýringu sem lesa má í heild með því að smella hér

Hlusta má á ítarlega umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila