Í Heimsmálunum í dag ræddu þau Arnþrúður Karlsdóttir, Pétur Gunnlaugsson og Bjarni Hauksson um innrás Ísrael í Líbanon í gær. Talið er að ínnrásin hafi verið í undirbúningi í margar vikur. Jafnframt var talið að símboða og farsímasprengingarnar hafi átt að vera upphafið að innrásinni í Líbanon. Það varð hins vegar ekki þar sem þær í raun mistókust og því var ekki farið í innrásaraðgerðir fyrr en nú. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
Fram kom að þegar skipunin um innrás loks kom var hún framkvæmd hratt og með mikilli hörku. Ísraelsk yfirvöld segja að hernaðaraðgerðirnar séu nauðsynlegar til að tryggja öryggi við norðurlandamæri sín, sérstaklega með tilliti til hættunnar frá Hezbollah-samtökunum sem hafa víða bækistöðvar í Líbanon.
Ísraelsmenn tóku ekki mark á Biden forseta
Árásin hefur vakið hörð viðbrögð á alþjóðavettvangi. Í þættinum kom fram að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði mótmælt áætlunum Ísraels og varað við því að innrásin gæti haft neikvæðar afleiðingar. Þrátt fyrir viðvaranir úr Hvíta Húsinu létu Íraelsmenn til skarar skríða og hófu innrásina. Aðgerðin hefur því leitt til aukinnar spennu milli Ísraels og Bandaríkjanna, sem hafa lengi verið nánir bandamenn.
Getur haft varanlega áhrif á stöðu átaka á svæðinu
Í þættinum var einnig bent á að margar af sprengjuárásum Ísraels, sérstaklega í suðurhluta Beirút, séu taldar hafa verið forleikur að innrásinni. Rætt var um hvernig þetta hernaðarátak gæti haft varanleg áhrif á stöðu svæðisins. Áætlanir Ísraels um landvinninga í Líbanon hafa áður mistekist, eins og sést í 33 daga stríðinu árið 2006 þar sem Ísraelar hröktust til baka og misstu um 100 hermenn.
Líklegt að Íran taki til sinna ráða
Óvissan er mikil og spenna ríkir bæði á hernaðarsviðinu og í stjórnmálum. Almenningur og stjórnvöld í nágrannalöndum Ísraels hafa fylgst með og óttast að ástandið gæti stigmagnast frekar. Innrásin hefur vakið nýjar spurningar um hvernig Ísrael ætlar að halda stöðu sinni á svæðinu án þess að kynda undir enn frekari átök, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Fram kom í þættinum að talsverð ógn gæti komið frá Íran í kjölfar þessarar innrásar.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan