Stríðið í Úkraínu heldur áfram að harðna og styrkur Rússlandshers eykst stöðugt. Samkvæmt nýjustu upplýsingum hefur Rússland bætt við 150.000 hermönnum og stefnir í að hafa alls 2 milljónir manna í her sínum. Mikil átök hafa átt sér stað á vígvöllunum í Dónetsk en það sem veldur mestum áhyggjum er kjarnorkuógnin sem hefur orðið hluti af stríðinu. Þetta segir Bjarni Hauksson þjóðfélagsrýnir en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í Heimsmálunum en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
Fjórar stórárásir á neðanjararbyrgi í Úkraínu
Bjarni bendir á að á undanförnum dögum hafi verið gerðar fjórar stórárásir á neðanjarðarbyrgi í Úkraínu sem hafa vakið gríðarlega ótta. Hann segir að óljóst sé hvaða vopn séu notuð til þessara árása en ljóst er að áhrif þeirra eru veruleg og vopnin gætu verið af ætt kjarnorkuvopna. Bjarni bendir á að kjarnorkuógnin sé stærsti ógnvaldurinn í þessu stríði þar sem allar aðgerðir gegn kjarnorkuinnviðum geta haft hrikalegar afleiðingar fyrir bæði Úkraínu og allan heiminn
Rússar gætu verið með vopn sem geti tortímt stórum hernaðarsvæðum
Áhyggjur hafa vaknað um að Rússar séu að nota vopn sem geti tortímt stórum hernaðarsvæðum með svipuðum hætti og kjarnorkuvopn þó þau séu ekki beinlínis flokkuð sem slík. Bjarni segir að þetta veki mikla óvissu um hvaða vopnabúnað Rússland hefur í sínum höndum og hvernig þau geti mögulega verið notuð í þessu stríði.
Hann segir einnig að þessar árásir á neðanjarðarbyrgin séu ekki bara hluti af hernaðarlegri áætlun heldur einnig sálfræðistríð til að skapa ótta meðal Úkraínumanna og alþjóðasamfélagsins.
Kjarnorkuógnin er orðin miðlæg í stríðinu í Úkraínu
Kjarnorkuógnin hefur þannig orðið miðlæg í stríðinu í Úkraínu og veldur alvarlegum áhyggjum um möguleg viðbrögð ef þessi ógn verður að raunveruleika.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan