Heimsmálin: Leiðtogalaus Evrópa í alvarlegum vanda

Það er ljóst að Evrópa á nú við alvarlegan vanda að stríða, bæði í efnahagslega og í öryggismálum, og er nánast leiðtogalaus. Þetta segir Hilmar Þór Hilmarsson prófessor við Háskólann á Akureyri en hann var gestur í Heimsmálunum í þætti Péturs Gunnlaugssonar. Bendir Hilmar á að forsetakosningar séu í Bandaríkjunum í nóvember í ár og nýr forseti taki svo við í upphafi árs 2025. Donald Trump, sem litlar mætur hefur á NATO, gæti orðið næsti forseti Bandaríkjanna.

Evrópa háð Bandaríkjunum í öryggismálum

Evrópa er eina efnahagslega stórveldið sem er háð öðru stórveldi, Bandaríkjunum, í öryggismálum, og Bandaríkin þurfa nú í auknum mæli að huga af öðrum heimshlutum, sérstaklega Austur Asíu þar sem spennan vex stöðugt. Átök geta brotist út hvenær sem er á Austur Kínahafi, á Suður Kínahafi, vegna Taívan og á Kóreuskaganum. Á öllum þessum stöðum er vaxandi spenna. Allt logar í ófriði í Mið Austurlöndum vegna átakanna á Gaza svæðinu og vaxandi líkur eru á að Hezbollah, sem staðsett er í Líbanon, og Íran dragist beint inn í stríðið.

Hver eru Vestræn gildi í huga þeirra sem ekki teljast til Vesturlanda

Í umræðunni um Úkraínu hefur verið sagt að Rússland ógni Vestrænum gildum um lýðræði og mannréttindi. Það eru án efa ýmis vandamál í Rússlandi á þessu sviði, en aðgerðir eða aðgerðarleysi vestrænna ríkja á Gaza svæðinu vekja spurningar um vestræn gildi hjá löndum sem ekki teljast til Vesturlanda.

Vesturlönd ekki sýnt nægjanlega samúð með Palestínumönnum

Vesturlönd hafa orðið fyrir álits hnekki vegna þessa máls og hafa ekki sýnt málstað Palestínumanna á Gaza svæðin samúð á sama hátt og málstað Úkraínumanna. Íslensk stjórnvöld eru ekki undanskilin í þessu sambandi. Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels ávarpaði Bandaríkjaþing 25. júlí sl. og var honum þar vel fagnað.

NATO teygir anga sína til Asíu og Mið-Austurlanda

Ekkert er minnst á átökin á Gaza svæðinu í ályktun leiðtogafundar NATO í júlí sl., en getið er um opnun á skrifstofu NATO í Amman í Jórdaníu. Í ályktuninni stendur „Together with the Hashemite Kingdom of Jordan we have agreed to open a NATO Liaison Office in Amman.“ Áður hafði NATO ákveðið að opna skrifstofu í Tókýo í Japan. Auðvitað vekur það spurningar þegar stofnun sem er varnarbandalag Norður Ameríku og Evrópu fer að teygja anga sína til annarra heimshluta, nú Asíu og svo til Mið Austurlanda.

Fréttin er hluti af ítarlegri fréttaskýringu sem lesa má í heild með því að smella hér.

Hlusta má á nánari umfjöllun í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila