Það er mikilvægt að Íslendingar fari að huga að því að NATO gæti heyrt sögunni til því ef svo færi væru varnir landsins ekki mjög miklar. Þetta segir Guðmundur Ólafsson hagfræðingur en hann var gestur í þætti Hauks Haukssonar, ásamt Sigurði Þórðarsyni verslunarmanni.
Guðmundur segir að flest bendi til þess að Donald Trump verði kjörinn forseti Bandaríkjanna og eins og menn vita þá er Trump ekki sérlega hrifinn af NATO yfirleitt. Því sé nauðsynlegt að Íslendingar fari að ræða um hvað eigi að gera líði NATO undir lok.
Hann bendir á að John Mersheimer prófessor í Chicago haldi því fram að ef NATO verði lagt niður þá fari þjóðir Evrópu að vígbúast og það endi með því að þjóðirnar færu í stríð hver við aðra. Þá myndi skapast ástand sem er keimlít því þegar 30 ára stríðið stóð yfir milli Frakka og Þjóðverja.
NATO ekki eilíft fyrirbæri
Guðmundur segir að það sé sérstakt að Íslenskir stjórnmálamenn virðist ekkert vita af þeim vanda sem NATO er á höndum og standi í þeirri trú að NATO sé eilíft fyrirbæri sem sé fjarri öllu sanni. Eitt sé víst að menn þurfi að skoða þessi mál að mati Guðmundar.
Ísland með varnarsamning við Bandaríkin
Ísland hafi þó eitt haldreipi enn sem sé varnarsamningurinn við Bandaríkin. Sá samningur sé alveg sérstakur því óvenjulegt sé að lönd séu bæði með samninga við NATO annars vegna og svo Bandaríkin hins vegar. Þar sem Ísland sé frekar lítið og einangrað þá sé það þannig að þegar skipt sé um ríkisstjórnir í Bandaríkjunum fram og aftur þá hafi það engin áhrif á þann samning því Bandaríkjamenn séu lítið að velta þessum samningi fyrir sér.
Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan