Það sem er mjög sérstakt við morðtilræðið við Trump er að svo virðist sem ódæðismaðurinn hafi ætlað að flýja af þaki hússins sem hann notaði sem skotstað og láta sig hverfa inn í mannfjöldann á svæðinu. Þetta segir Bjarni Hauksson þjóðfélagsrýnir en hann var gestur Hauks Haukssonar í Heimsmálunum.
Bjarni bendir á að í flestum tilvikum þegar tilræði sem þetta séu framin geri árásarmennirnir yfirleitt ráð fyrir því að verða felldir en margt bendi til þess að Thomas Crook sem framdi ódæðið hafi ætlað sér að komast undan.
Reyndi að flýja af þakinu
Segir Bjarni að það megi meðal annars sjá á því að þegar komið var að líki hans hafi það legið í talsverðri fjarlægð frá skotvopninu sem hann notaði við verknaðinn. Það bendi mjög til þess að hann hafi hent frá sér skotvopninu og reynt að gera tilraun til þess að flýja af þakinu.
Ætlaði að falla inn í fjöldann
Þá hafi hann verið íklæddur bol sem hafi lýst nokkurs konar ást á ættjörðinni og þar sem fylgjendur Trump eru mjög margir í klæðnaði með svipuðum formerkjum má leiða líkum að því að hann hafi klæðst þessum bol til þess að falla í fjöldann.
Ótrúlegt að skotmaðurinn hafi komist svona nálægt Trump
Þá segir Bjarni að það sé í raun alveg ótrúlegt hvað skotmaðurinn hafi náð að komast langt í ætlunarverki sínu áður en hann hafi verið felldur því leyniskyttum sé í raun ætlað að sjá til þess að tilræðismenn komist ekki það langt að þeim detti einu sinni í hug að þeir eigi möguleika á að skjóta fyrsta skotinu og hvað þá að þeir geti látið sig dreyma um að geta komist í þá stöðu að geta miðað á forsetann fyrrverandi.
Bjarni segir einnig afar sérkennilegt að hæstráðendur gæslumála hafi svarað því til að ekkert hafi misfarist þegar þeir hafi verið spurðir um atvikið.
Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan