Það sætir mikilli furðu hversu nálægt Thomas Matthes Crooks sem reyndi að ráða Donald Trump af dögum komst að Trump áður en hann lét til skarar skríða. Þetta segir Íris Erlingsdóttir fjölmiðlafræðingur en hún var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í Heimsmálunum.
Íris segir það jafnvel enn furðulegra að Crooks hafi náð að skjóta átta skotum úr byssu sinni áður en hann var felldur af leyniskyttu sem var í um 120 metra fjarlægð frá þeim stað sem skotmaðurinn hafi komið sér fyrir. Bendir Íris á að það hafi verið fyrir einskæra lukku að þegar skotmaðurinn hóf skothríðina hafi Trump litið til hliðar og því hafi skot hafnað í eyra hans en ekki höfði eins og Crooks hafði ætlað sér.
Sjónarvottar létu leyniþjónustuna vita um skotmanninnn með riffil á húsþakinu
Fyrir atburðinn höfðu sjónarvottar látið lögreglu vita af því að það væri maður með skotvopn að klifra upp á þak á nálægri byggingu en svo virðist vera að ekkert hefði verið aðhafst þrátt fyrir þær ábendingar. Í afstöðumynd sem fylgir þessari frétt og sjá má hér að neðan sést hvar sú bygging er sem skotmaðurinn hafði komið sér fyrir á og þar má einnig sjá hvar sú leyniskytta sem felldi Crooks var staðsett þegar hann var felldur.
Munaði millimetrum að Trump hefði verið skotinn til bana
Einnig má sjá fyrir neðan skýringarmynd hvernig kúlan sem hæfði eyra Trump hefði hæft hann aftarlega í höfuðið hefði Trump ekki litið til hliðar á því sekúndubroti þegar kúlan kom fljúgandi í áttina að honum.
Fyrir neðan skýringarmyndirnar má svo hlusta á ítarlegri umræður í þættinum í spilaranum.