Nýlega voru sett lög í Úkraínu sem heimila yfirvöldum að láta sérsveitir handtaka fólk af handahófi á götum úti í þeim tilgangi að koma þeim í herinn og verða að byssufóðri. Þetta var meðal þess sem fram kom í þættinum Heimsmálin í dag en þar var Haukur Hauksson fréttamaður í Moskvu gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.
Haukur segir að ástandið sé afar slæmt og það sé svo að almenningur lendi í slagsmálum við lögreglu þegar fólk reyni að hindra umræddar sérsveitir í að handtaka fólk í þessum tilgangi en lögin heimila handtöku einstaklinga á aldrinum 16 til 60 ára.
Hörmungar sem almenningur í Úkraínu býr við
Þetta bætist við þær hörmungar sem almenningur í landinu býr við og eru lögin sett á sama tíma og Zelensky sé í raun orðinn einræðisherra enda sé kjörtímabil hans runnið út og ekki hafi enn verið kosið um nýjan forseta.
Efast um að fjárstyrkur Íslendinga skili sér til amennings í Úkraínu
Haukur bendir á að á sama tíma og þetta sé að eiga sér stað sé 16 milljörðum af skattfé Íslendinga tekið og sett inn í sjóð hjá Alþjóðabankanum og því fé ætlað að renna til Úkraínu en ekkert eftirlit sé með því í hvað þetta fé fari. Hér á landi sé á sama tíma heilbrigðiskerfið fjársvelt og dæmi um deyjandi sjúklinga á sjúkrahúsgöngum. Haukur segir að efast megi um að peningarnir skili sér til aðstoðar við almenning í Úkraínu og ef þeir geri það þá sé það væntanlega ekki nema brotabrot af allri upphæðinni.
Slæmt fordæmi að veita fjárstuðning til vopnakaupa
Þá segir Haukur að þessi stóra fjárveiting til Úkraínu sé slæmt fordæmi því þá geti herforingjar NATO nýtt sér þetta í næstu stríðum og sagt Íslandi að taka þátt í frekari hernaði.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan