Heimsmálin: Staða repúblikana ekki eins sterk og þeir gerðu ráð fyrir – Talningarvélar biluðu

Staða repúblikana í þingkosningunum í Bandaríkjunum er ekki eins sterk og þeir höfðu gert ráð fyrir en eins og gengur eru þeir sterkari í nokkrum fylkjum og er styrkur milli flokkanna oft afar mismunandi eftir landssvæðum. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Gústafs Skúlasonar fréttamanns í Stokkhólmi í þættinum heimsmálin, fréttir og fréttatengt efni af erlendum vettvangi í dag en hann var viðmælandi Péturs Gunnlaugssonar.

Allt lítur út fyrir að demókratar vinni varnarsigur í kosningunum og segir Gústaf að repúblikanar hafi lagt þunga áherslu á að vera með meirihluta bæði í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, en sá draumur lítur út fyrir að vera renna út í sandinn. Áróður demókrata um að lýræðið væri í hættu ef repúblikanar fengju meirihluta virðist þó ekki hafa haft tilætluð áhrif enda séu demókratar fyrst og fremst að vinna varnarsigur en eru ekki að gera neina stórkostlega hluti í þessum kosningum.

Gústaf segir að staðan sé mjög stíf og ljóst að þjóðin sé klofin í tvær nánast jafn stórar fylkingar. Einnig bæti ekki úr skák að nú þegar hefur komið fram hörð gagnrýni á framkvæmd kosninganna í Arizona þar sem 20% kosningavéla hafi bilað og óljóst hvort sum atkvæði hafi verið talin tvisvar eða alls ekki verið talin. Gústaf segir að vegna þessara bilana væri það mál manna að talningarlok gætu tafist allt til 6.desember næstkomandi.

Vegna talningarvandræðanna mynduðust gríðarlegar biðraðir og kom Donald Trump fyrrverandi forseti með ávarp þar sem hann hvatti fólk til þess að gefast ekki upp og bað fólkið umfram allt að fara ekki úr biðröðunum. Þrátt fyrir þau orð forsetans fyrrverandi fóru margir úr biðröðunum að vonum svekktir yfir að geta ekki tekið þátt í kosningunum að þessu sinni.

Þá segir Gústaf að bæði repúblikanar og demókratar hafi sent heilan her lögfræðinga á talningarstaði þar sem talið var að mjótt yrði á munum milli fylkinga til þess að gæta að því að ekkert færi úrskeiðis við talninguna og að draga úr hættunni á að reynt yrði að svindla.

En það er titringur víða vegna kosninganna og segir Gústaf að það megi til dæmis merkja á skrifum fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar Fredrik Reinfeldt, sem virðist vilja leggja áróðursmaskínum demókrata lið. Forsætisráðherrann fyrrverandi lét þau ummæli falla í skrifum sínum, að Donald Trump sé hættulegasti maður í heimi, sem myndi skaða lýðræðið og hann lifi í hliðarveruleika við raunveruleikann og að það sama ætti einnig við um Pútín. Þetta segir Gústaf að sé til marks um það, að forsætisráðherrann sé hlynntur öflum, sem sé mikið í mun að demókrötum gangi vel í þessum kosningum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila