Í ræðu sinni á landsfundi Repúblikana kom Donald Trump víða við en þar ræddi hann meðal annars um að sameina þyrfti þjóðina og taka jafnframt á þeim vanda sem ólöglegir innflytjendur hafa valdið. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Írisar Erlingsdóttur fjölmiðlafræðings í Heimsmálunum en hún var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur.
Trump byrjaði ræðuna á að lýsa yfir von sinni um að sameina þjóðina og lagfæra tvískiptinguna í bandarísku samfélagi. Hann sagði að hann vonaðist til að leiða þjóðina til sameiningar og samstarfs, en mikil sundrung hefur einkennt bandarískt samfélag síðustu ár.
Brottvísunaraðgerðir framundan í Bandaríkjunum verði Trump forseti
Trump fór einnig ítarlega yfir stefnu sína í innflytjendamálum og lofaði að framfylgja stærstu brottvísunaraðgerðum í sögu Bandaríkjanna. Hann sagði að ólöglegir innflytjendur væru stórt vandamál. Íris tekur undir þetta og bendir á að neyðarástand ríki í mörgum borgum vegna ólöglegra innflytjenda. Þá sagði Íris að heilu flugvellirnir séu undirlagðir innflytjendum sem sofa í svefnpokum á gólfinu. Þá séu hnífaárásir orðnar mjög algengar í New York og Chicago og í þeim tilvikum væru gerendurnir oftast ólöglegir innflytjendur.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan