Heimsmálin: Úkraína notuð sem verkfæri til að veikja Rússland

Bandaríkin og Vesturlönd nýta sér bága stöðu Úkraínu og senda þangað vopn í proxy stríði í þeim eina tilgangi að veikja Rússland á meðan þau skeyta engu um afleiðingar stríðsins fyrir íbúa þess. Þetta var meðal þess sem fram kom í Heimsmálunum en þar var Haukur Hauksson fréttamaður í Moskvu gestur Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.

Í þættinum kom fram að þetta væri stefna sem Vesturlönd hafi lengi beitt til að berjast gegn stórveldum án þess að koma sér sjálf í bein hernaðarátök. Úkraína hafi þannig því miður orðið að verkfæri í þessari baráttu, þar sem Vesturlönd vilja í raun einangra og veikja Rússland, sérstaklega í ljósi þeirra áhrifa sem Rússar hafa í Evrópu og víðar. Bent var á að þrátt fyrir stuðninginn sé ljóst að Úkraína er orðið algjörlega háð þessum aðilum til að halda stríðinu áfram og ef stuðningurinn minnkar gæti Úkraína staðið frammi fyrir mjög erfiðri stöðu.

Úkraína líður mest fyrir þessi átök með miklu mannfalli

Haukur segir að í þessum hildarleik sé það Úkraína sjálf sem greiðir hæsta verðið í þessum átökum, með miklum mannfalli, eyðingu innviða og hörðum hernaðarárásum frá Rússlandi. Hann nefndi að Úkraína hafi tapað stórum hluta af herliði sínu og að stórir hlutar landsins séu í rústum. Hann benti einnig á að stríðið hafi leitt til verulegrar fólksfækkunar þar sem milljónir Úkraínumanna hafa flúið landið.

Úkraína orðið háð Vesturlöndum

Pétur tók undir þetta og sagði að þó að Úkraína hafi fengið stuðning frá Vesturlöndum, þá hafi það einnig gert landið algerlega háð utanaðkomandi aðstoð. Hann sagði að Úkraína sé nú orðin vettvangur þar sem stórveldin takast á en það séu Úkraínuhermenn og borgarar sem líði mest fyrir það. Hann nefndi einnig að landið hafi verið eyðilagt að stórum hluta, sérstaklega þegar kemur að orkuverum og iðnaði, sem muni hafa langvarandi áhrif á framtíð landsins.

Stuðningur Nato er stríðsyfirlýsing gegn Rússlandi

Arnþrúður nefndi að rússnesk stjórnvöld hafi lengi lýst Úkraínu sem „verkfæri“ í höndum Vesturlanda. Hún benti á að Vladimir Putin hafi margsinnis sagt að stuðningur NATO-ríkja við Úkraínu sé í raun stríðsyfirlýsing gegn Rússlandi. Rússland lítur þannig á að þetta sé stríð milli þeirra og NATO þó að Úkraína sé á yfirborðinu höfuðandstæðingurinn.

Rússar líta á málið sem beina ógn

Pétur bætti við að Rússar líti svo á að Vesturlönd, sérstaklega Bandaríkin, séu að nota Úkraínu sem hluta af stærri áætlun til að veikja Rússland og útiloka það frá Evrópu. Með því að útvega Úkraínu vopn og fjárhagsaðstoð, en án þess að taka beina þátt í stríðinu geta Vesturlönd takmarkað hernaðarlega útþenslu Rússlands án þess að senda eigin hermenn í átökin. Þetta er hluti af stefnu NATO til að einangra Rússland, en Rússar sjá þetta sem beina ógn og það getur reynst örlagaríkt.

Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila