Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að Helga Magnúsi Gunnarssyni, vararíkissaksóknara skuli ekki vera vikið frá störfum eins og Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hafði farið fram á við dómsmálaráðherra þann 29. júlí 2024. Málið tengist opinberum ummælum vararíkissaksóknara sem fjallað hefur verið töluvert um í fjölmiðlum og snýr að ofsóknum glæpamannsins Kourani gagnvart Helga og fjölskyldu hans.
Samkvæmt dómsmálaráðherra er það mat hennar að þrátt fyrir að hún telji ummæli Helga Magnúsar óviðeigandi og ekki í samræmi við stöðu hans sem embættismanns hafi sérstakar aðstæður verið til staðar, þar sem Helga Magnúsi hafði verið hótað ofbeldi, bæði honum og fjölskyldu hans. Það hafði áhrif á mat ráðherra á svigrúmi vararíkissaksóknara til að tjá sig. Með vísan til meðalhófs og þessara sérstöku aðstæðna var niðurstaðan sú að veita Helga Magnúsi ekki lausn um stundarsakir.
Dómsmálaráðherra kynnti þessa niðurstöðu bæði fyrir Helga Magnúsi og Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara á fundi í dag mánudaginn 9. september.
Dómsmálaráðuneytið ítrekar í niðurstöðu sinni að vararíkissaksóknari starfi í umboði ríkissaksóknara og er honum til aðstoðar. Ríkissaksóknari fer með almennan stjórnunarrétt yfir starfsmönnum embættisins, þar á meðal vararíkissaksóknara, en dómsmálaráðherra fer með veitingarvaldið. Áminningarvald er hins vegar á hendi ríkissaksóknara sem forstöðumanns embættisins.