Að gefnu tilefni og í ljósi þess að þingflokkur Miðflokksins hefur lagt fram vantrauststillögu gagnvart Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra rifjum við upp hér frétt frá árinu 2023 frá þeim tíma þegar Svandís Svavarsdóttir þáverandi matvælaráðherra setti bann á hvalveiðar og rifjum upp hvað Stefán sagði um málið.
Stefán Vagn Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins og formaður atvinnuvegnanefndar Alþingis segir að fundað verði fljótlega í nefndinni, vegna ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að banna veiðar á langreyði, degi áður en þær áttu að hefjast. Í samtali við fréttvef Útvarps Sögu sagði Stefán að þegar atvinnuveganefnd fundar með Svandísi verði hún spurð út í ákvörðunina.
Aðspurður um hvort hann telji að ráðherra geti tekið slíka ákvörðun án stjórnsýslulegrar meðferðar segir Stefán:
„hún segist geta tekið slíka ákvörðun og ég hlakka til þessa fundar við Svandísi matvælaráðherra þar sem hún mun þurfa að rökstyðja ákvörðunina og útskýra hvað lá að baki ákvörðuninni og hvaða lög heimila ákvörðunina“segir Stefán.
Aðspurður um hvað honum finnist um ákvörðun Svandísar segir Stefán að hann sé þeirrar skoðunar að stunda eigi sjálfbærar hvalveiðar.
Ákvörðun matvælaráðherra hefur fallið í afar grýttan jarðveg bæði hjá Sjálfstæðismönnum sem og starfsmönnum Hvals hf sem treyst höfðu á að þeir væru á leið á vertíð. Sumir starfsmanna höfðu jafnvel sagt upp annari vinnu til þess að taka þátt í veiðunum og afurðavinnslu.
Þá hefur Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness fordæmt ákvörðun Svandísar og bent á að með henni hafi 120 félagsmenn hans verið gerðir atvinnulausir eins og hendi væri veifað.