Hluti nefskattar til einkarekinna fjölmiðla-RUV áfram á auglýsingamarkaði

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og við­skipta­ráðherra segir að hún sé tilbúin til þess að skoða hvort hægt sé að leyfa skattgreiðendum að ráðstafa hluta nefskattsins til fjölmiðla að eigin vali. Þá segir Lilja að í núverandi fjölmiðlaumhverfi sé ekki skynsamlegt að taka RÚV alfarið af auglýsingamarkaði því auglýsingatekjurnar séu líklegar til þess að fara í auknum mæli til erlendra miðla eins og Google, Youtube og Facebook. Þess í stað sé ætlunin að draga úr vægi RÚV á auglýsingamarkaði með því að draga úr markaðssetningu auglýsingadeildarinnar og setja auglýsingarnar í svokallað pant. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Lilju í síðdegisútvarpinu í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur.

Lilja segir að hún hafi þegar tjáð útvarpsstjóra þessar hugmyndir sem snúa að því að í stað markaðssetningarinnar sem nú sé viðhöfð geti þeir einstaklingar og fyrirtæki haft samband við RÚV að fyrra bragði og pantað auglýsingar. Aðspurð um hvernig hafa eigi eftirlit með því segir Lilja að hún hafi ekki áhyggjur af því, þetta séu hugmyndir sem verið sé að vinna að og séu miklar kerfisbreytingar að hennar mati. Hún segir að með þessu muni ákveðið súrefni myndast fyrir aðra fjölmiðla.

Alvarleg mismunun í gangi vegna virðisaukaskatts

Arnþrúður benti á að í dag þurfi einkareknir fjölmiðlar að greiða virðisaukaskatt af seldum auglýsingum, vöru og þjónustu á meðan erlendir miðlar starfi hér landamæralausir og greiði engan virðisaukaskatt. Arnþrúður spurði því hvers vegna ekki væri gerð sú krafa af hálfu stjórnvalda að þeir greiði virðisaukaskatt eða að allir fjölmiðlar ásamt RÚV yrðu undanþegnir virðisaukaskatti til þess að sitja við sama borð og erlendir miðlar.

Lilja segir að hennar ráðuneyti og fjármála og efnahagsráðuneytið vinni að því að reyna að jafna þessa stöðu sem Lilja segir að sé gjörsamlega óþolandi. Hún segir að til standi að setja skatta á erlendar efnisveitur, þeir skattar yrðu svo nýttir til innlendrar dagskrárgerðar á ljósvakamiðlum. Hún segir að Bretar hafi reynt að skattleggja erlendar efnisveitur með litlum árangri og því telur Lilja að alþjóðlega samvinnu þurfa að koma til.

Aðspurð um hvort ekki sé rétt að setja undanþágu fyrir innlenda miðla undan virðisaukaskatti á meðan unnið er að því á alþjóðlegum vettvangi að finna leiðir til þess að skattleggja erlendar efnisveitur. Lilja svaraði ekki spurningunni en sagði að hún teldi bein tengsl milli hnignandi stöðu fjölmiðla og minnkandi stuðningi við lýðræðið.

RUV með undanþágu frá EES samningnum

Arnþrúður bendir á að stærsti vandinn hvað varðar stöðu RÚV sé að RÚV sé með undanþágu frá EES samningnum sem geri það að verkum að miðilinn fái lögbundinn nefskatt og á sama tíma á auglýsingamarkaði. Um sé að ræða óbærilega stöðu fyrir einkarekna miðla sem þurfi að starfa við þær aðstæður að RÚV sé með forréttindastöðu að fá bæði úr ríkissjóði og vera á auglýsingamarkaði. Með því að einkareknir fjölmiðlar fengju hluta nefskattarins gætu sparast mikir fjármundir fyrir ríkissjóð, aukin skilvirkni, frelsi ásamt því að vera rafrænt fyrirkomulag og í takt við tímann, sagði Arnþrúður.

Lilja segist vera opin fyrir þeirri hugmynd og tilbúin að skoða það hvað nefskattinn varðar að skattgreiðendur geti á skattskýrslu sinni ráðstafað hluta hans til fjölmiðla að eigin vali.

Hlusta má á þáttinn hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila