Í þættinum fréttir vikunnar fór Arnþrúður Karlsdóttir yfir þau helstu mál sem hafa verið í umræðunni í vikunni ásamt þeim Jakobi Frímanni Magnússyni þingmanni Flokks fólksins og tónlistarmanni sem og Sævari Þór Jónssyni lögmanni. Í þættinum var meðal meðal annars rætt um hnífaárásir og vopnaburð barna og ungmenna í ljósi alvarlegra tíðinda, öryggi ferðamanna, orkumál og efnahagsmál. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
Götur lokaðar og miðborginni breytt í vígvöll
Fram kom í þættinum að hnífaárásir og vopnaburður barna og ungmenna sé mikið áhyggjuefni og að skortur á sýnilegri löggæslu í miðborginni sé orðið alvarlegt vandamál, sérstaklega á háannatímum. Þörf væri á aukinni löggæslu til að takast á við aukið ofbeldi og vímuefnaneyslu, sem hefur haft neikvæð áhrif á öryggi í borginni. Þá bæti ekki úr skák að mörgum götum hefði verið lokað og þær gerðar að göngugötum, sem nú væru orðanar eins og vígvöllur þar sem börnum og ungmennum finnist þau þurfa að ganga um vopnuð.
Glæpamenn rændu börnum í Laugardalnum
Jakob sagði að það mætti rekja hnífaburð barna og ungmenna að einhverju leyti til þess að þetta þyki einhvers konar tíska að ganga um vopnaður hnífi og þetta komi svo fram í þessum alvarlegu málum sem hafa verið að eiga sér stað. En öryggi barna og ungmenna er ekki aðeins hætta búin í miðborginni því Sævar sagði frá því að hann vissi til þess að glæpamenn hefðu ráðist að börnum í Laugardalnum og hreinlega rænt þeim og neytt þau til þess að taka út peninga í hraðbanka sem þeir síðan rændu af þeim.
Gæta þarf að orðspori Íslands sem ferðamannalands
Í þættinum var einnig fjallað um nýlegt banaslys sem varð þegar erlendur ferðamaður fórst í íshellaferðum. Jakob og Sævar voru sammála um að tilraunir til að bjóða upp á hættulegar ferðir, sérstaklega í sumarbyrjun, séu óábyrgar og geti haft alvarleg áhrif á orðspor Íslands sem ferðamannalands. Þeir lögðu til að farið verði varlega í að skipuleggja slíkar ferðir, sérstaklega í ljósi þess að íslenska náttúran er ófyrirsjáanleg og getur verið hættuleg ef ekki er rétt staðið að málum.
Hlusta má á þessar og fleiri fréttir vikunnar í spilaranum hér að neðan