Hoppandi kengúra varð gervigreindinni að falli

Þessa dagana hefur gervigreindin verið mikið til umræðu og sitt sýnist hverjum í þeim efnum og þó flestir séu sammála um að hún geti komið að gagni eru einnig margir sem telja hana skaðlega. Í síðdegisútvarpinu í dag ræddi Arnþrúður Karlsdóttir við Kristinn Sigurjónsson rafmagns og efnaverkfræðing um heim gervigreindarinnar.

Kristinn segir hugmyndir um gervigreind ekki nýjar af nálinni því fyrir áratugum síðan hafi menn látið sig dreyma um að hægt yrði að fá tölvur til þess að líkja eftir mannshuganum. Það var svo ekki fyrr en nýlega sem á sjónarsviðið spruttu fyrstu vísarnir af þeirri gervigreind sem þekkt er og er notuð í dag.

Hann segir að stærsti gallinn við gervigreindina sé sá að hún mótist af því umhverfi sem hún er búin til í og sé þess vegna ekki eins fullkominn og mannshugurinn. Gervigreindin leiti eftir upplýsingum í ákveðnu netkerfi þar sem sífelt er verið að bæta nýjum upplýsingum inn sem gervigreindin svo vinnur úr. Þetta fyrirkomulag að safna upplýsingum í stórt netkerfi í stað hefðbundinna einangraðra kerfa gerir gervigreindinni kleift að læra af nýjum upplýsingum sem bætt er inn, þetta sé því í raun alger bylting í tölvuvinnslu.

Kengúran sem setti gervigreindina út af laginu

Sem fyrr segir markast geta gervigreindarinnar af því umhverfi sem hún er mótuð í og endurspeglar hún því í raun umhverfi sitt. Kristinn sagði í þættinum frá skemmtilegri dæmisögu um þegar Volvo var eins og margir bílaframleiðendur að þróa sjálfkeyrandi bíla en í þá er meðal annars notuð gervigreind. Tilraunir Volvo fóru fram í Ástralíu og fljótlega kom upp vandamál sem bílaframleiðandinn hafði ekki séð fyrir því bílinn hafði verið þróaður til þess að þekkja ýmis form af gangandi vegfarendum og öðru sem á vegi sjálfkeyrandi bíls gæti orðið. En skyndilega varð hoppandi kengúra til þess að Volvo þurfti að stöðva tilraunir sínar. Það kom nefnilega á daginn að forritið í bílnum gat engan vegin þekkt hoppandi kengúrur því í forritinu hafði ekki verið gert ráð fyrir slíkum dýrum.

„í því umhverfi sem gervigreindin var mótuð í var hún hönnuð til þess að þekkja gangandi vegfarendur, gamalt fólk með staf, börn, barnavagna og svo framvegis en þarna kom fyrirbærið hoppandi kengúra sem setti gervigreindina alveg í baklás“

Þarna sé dæmi um þau vandamál sem geti komið upp þegar kemur að notkun gervigreindar segir Kristinn en hvort hún verði til góðs eða ills segir Kristinn að hann sé sannfærður um að hún komi til með að spara heilmikinn vinnutíma.

„til dæmis við símsvörun því hún getur til að mynda svarað spurningum um reglur, hvaða aðferðir er best að nota við þetta og hitt þá getur hún svarað slíku en ég er ekki vissum að hún fari í miklar tæknilegar rökræður“

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila