Illa svikin af Reykjavíkurborg og fá engin svör

Hjónin Inga Lóa Guðjónsdóttir og Hilmar Páll Jóhannesson sem reka fyrirtækið Loftkastalann voru svikin af Reykjavíkurborg eftir að þau keyptu tvö hús á 1800 fermetra lóð auk byggingaréttar á annari samliggjandi lóð í Gufunesi. Hins vegar breytti Reykjavíkurborg lóðaskipan eftir kaupin sem veldur því að þau geta ekki nýtt lóðina á þann hátt sem þau ætluðu að gera og voru með í huga þegar þau keyptu lóðina. Hilmar og Inga voru gestir Péturs Gunnlaugssonar í síðdegisútvarpinu þar sem þau sögðu sögu sína.

Forsaga málsins er sú að Loftkastalinn festi kaup tveim húsum á 1800 fermetra lóð ásamt byggingarrétti í landi Gufuness en eftir kaupin ákvað borgin að skipta lóðinni í tvennt með þeim loforðum að skiptingin hefði ekki áhrif á lóð Loftkastalans.

Gátu ekki nýtt lóðina sem þau keyptu

Fyrir tilviljun komust forsvarsmenn Loftkastalans svo að því að hækka ætti baklóðina um 60 sentimetra en þær fyrirætlanir hafi hvergi komið fram við kynningu á eigninni. Lóðin hafi þannig ekki verið í samræmi við þær forsendur sem settar voru fram við kaupin og því geta eigendur Loftkastalans ekki nýtt lóðina á þann hátt sem þeir ætluðu í upphafi. Eigendur Loftkastalans eru mjög ósáttir við framkomu borgaryfirvalda og hafa nú staðið í deilum við borgina vegna málsins í nær sex ár með tilheyrandi óþægindum og röskun á starfsemi Loftkastalans.

Ekki gefinn kostur á andmælum

Þegar farið var að kanna málin nánar komust forsvarsmenn Loftkastalans fljótt að því að mörgu hafi verið ábótavant við feril og vinnslu málsins, Lögbundnu samráðsferli hafi ekki verið fylgt auk þess sem framkvæmdum við deiliskipulag hafi verið verulega ábótavant. Þá hafi ekki verið gefinn kostur á að koma fram með athugasemdir auk þess sem gögnum hafi verið haldið frá aðilum málsins.

Borgaryfirvöld með leikrit í sambandi við málið

Þau segja að fundir sem haldnir hafa verið með borgaryfirvöldum vegna málsins séu einungis leikrit til þess fallin að draga málið á langinn og að það sé í raun gert í þeirri von að þau gefist upp og hætti að krefja borgaryfirvöld um úrbætur.

Þá segja þau að lög hafi einnig verið brotin því skjölum hafi til að mynda verið bréytt eftirá.

Þau eru að vonum orðin afar þreytt á ástandinu og segja að þegar þau vonuðust til þess að nýr borgarstjóri myndi taka á málinu var því einfaldlegavísað til borgarlögmanns og hafa þau enga trú á að þar muni neitt gerast í málinu enda sé reynslan af embættismönnum innan borgarkerfisins með þeim hætti að mál séu einfaldlega svæfð af þeim. Þá á sínum tíma hafi þau einnig verið í sambandi við Dag B. Eggertsson þáverandi borgarstjóra sem sagðist ætla að lagfæra málin fljótt og vel en það hafi hins vegar einnig verið svikið.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila