Vandinn sem vaxtahækkanir hafa valdið er manngerður vandi. Vandi sem hefur sérstaklega slæm áhrif á fátækar fjölskyldur. Þetta segir Inga Sæland formaður Flokks fólksins en hún var gestur Péturs Gunnlaugssonar í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.
Inga benti á að vaxtahækkanir síðustu misseri hafi haft veruleg áhrif á heimili og fyrirtæki um allt land, en sérstaklega á þá sem þegar eru í viðkvæmri stöðu.
Vaxtabyrgði hefur tvöfaldast
Inga tók dæmi af ungu fólki sem hefur þurft að taka fasteignalán til að eignast sitt fyrsta húsnæði, en stendur nú frammi fyrir því að vaxtabyrðin hafi tvöfaldast. Hún lýsti því hvernig fjölskyldur, sem áður gátu rétt svo staðið undir greiðslum, séu nú komnar í mikla fjárhagslega erfiðleika. Þetta leiði til þess að margir séu þvingaðir út í verðtryggð lán, sem hún telur að muni aðeins auka á vandann þegar fram í sækir.
Matarkarfan og nauðsynjar hækka í verði
Þá ræddi Inga einnig um áhrif vaxtahækkana á þá sem ekki hafa efni á að taka lán, en finni samt sem áður fyrir áhrifum hækkandi vaxta. Hún benti á að hækkandi vextir leiði til þess að matarkarfan, húsaleigan og aðrar nauðsynjar hækka í verði, sem geri líf þeirra sem búa við fátækt enn erfiðara og nær óbærilegt.
Aðgerðaleysi stjórnvalda
Inga gagnrýndi einnig aðgerðaleysi stjórnvalda sem hún telur hafa gert ástandið verra. Hún sagði að stjórnvöld hefðu ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til að draga úr áhrifum vaxtahækkana, eins og að setja þak á vexti eða taka húsnæðisliðinn úr vísitölu útreikninga á verðbólgu. Inga sagði að þetta væri manngerður vandi sem hefði verið fyrirsjáanlegur, en stjórnvöld hefðu kosið að gera lítið sem ekkert í því.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan