Íris Erlingsdóttir skrifar frá Bandaríkjunum

Vitleysingur vopnaður AR-15 riffli gerði síðastliðið laugardagskvöld tilraun til að myrða Donald Trump, fyrrverandi og líklega verðandi forseta Bandaríkjanna. Skaut hann. Bara í eyrað, en eins og margir vita er eyrað fast við höfuðið, svo þessi morðtilraun var nokkrar hársbreiddir frá morði. Þrátt fyrir að milljónir manna um allan heim hefðu séð atburðarásina í beinni útsendingu, áttu margir fjölmiðlar í erfiðleikum með að skilja hvað gerðist. 

Morðtilraunin á Donald Trump minnir okkur enn á ný á sósíópatana meðal okkar. Forréttindapúkarnir sem fylkja liði á götum vestrænna stórborga og þjóðþinga til stuðnings hryðjuverkamönnum fæddust ekki án samúðar eða mannúðar, heldur hafa þeir þjálfað sig sjálfa í siðblindu og eru stoltir af henni – hún er þungamiðja heimsmyndar þeirra.  

Allt venjulegt fólk sem horfir á myndband af skotárásinni tekur eftir því að Trump var greinilega undrandi á að hafa verið skotinn. En vegna siðblindu, sem gerir þeim ókleift að sjá það sem fyrir augu ber, komust sósíópatarnir að þeirri niðurstöðu að Trump hefði látið sviðssetja morðtilraunina til að afla sér fylgis og vinna kosningarnar (sem hann mun vinna, að því gefnu að CIA geri ekki aðra tilraun). 

Hvaða manneskja, sem ekki hefur verið skotin í höfuðið og nýtur því heilbrigðrar heilastarfsemi, trúir því að Trump myndi hætta lífi sínu og stuðningsmanna sinna – einn þeirra var myrtur þegar hann kastaði sér fyrir framan eiginkonu sína og dóttur til að vernda þær – til að vinna kosningar sem þegar var líklegt að hann myndi vinna?

Þetta er gott fréttaefni í Lalalandi, þar sem vinstrisinnar búa og allir syngja “Heilagt stríð, útrýmið Ísrael, Trump er Hitler endurborinn, karlar eru konur og við munum öll deyja úr loftslagsbreytingum nema við kaupum rafbíl,” sem stjórnvöld geta slökkt á þegar þeim sýnist. 

Ímyndið ykkur að vera stolt af stuðningi við hryðjuverkamenn og morðingja. En vestrænir vinstrimenn eru stoltir. Þeir eru stoltir af því að fylkja liði meðal fólks sem lítur á þá sem réttdræpa heiðingja – og þeir eru stoltir af því að segja: „Reyndu að hitta næst.

Það væri auðvelt að segja að viðbrögð af þessu tagi séu brjálæði eða illmennska því þau eru brjálæði og illmennska, en þau eru meira en það. 

Stærsta vandamálið við vinstri stjórnmál – ég veit þetta sem fyrrverandi ævilangur vinstrimaður – er að þau byggja ekki á raunveruleika heldur hugmyndafræði. „Tilgangurinn helgar meðalið“ er þungamiðja vinstri hugmyndafræði. Við eigum að endurskipuleggja heiminn með „byltingu.“ Ekki skiptir máli hvað eyðileggst í ferlinu (ætlunin er eyðilegging, svo við getum byggt sæluríkið á rústunum) og hverjir deyja, því við erum að búa til betri heim. Fórnir eru nauðsynlegar ef við viljum framkvæma allt sem er gott og réttlátt.

Það er lítill munur á jihadistunum í Hamas sem vestrænir vinstri menn eru svo ástfangnir af og vinstri mönnunum sjálfum: báðir hata Vesturlönd og vestræn gildi, þeir hata málfrelsi, hata lýðræði og telja ofbeldi og jafnvel morð réttlætanlegt ef það er framið gegn pólitískum og/eða hugmyndafræðilegum óvinum.

Það skiptir ekki máli hvernig okkur líkar við persónuleika Donald Trumps. Við  þekkjum hann ekki persónulega og hann er ekki í áheyrnarprufu til að vera vinur okkar eða drykkjufélagi. Þar til á laugardaginn var raunin sú að flestir bandarískir kjósendur yrðu að velja á milli tveggja óvinsælla frambjóðenda, eins og gengur og gerist í kosningum. En nú hafa kjósendur nýjan valkost: við getum kosið flokk sem heldur áfram, jafnvel eftir morðtilraun, að kalla Trump fasista og tilvistarógnun, eða við getum kosið gæjann sem var skotinn í eyrað (fast við höfuðið) og hans viðbrögð voru að vera rólegur, standa upp og öskra „berjist!“ Eftir áralanga stjórn raggeita á heimsmálunum eru þessi “badass” viðbrögð hressandi.  

Þeir sem enn eru í vafa ættu að velta fyrir sér skilaboðunum frá augum þeirra og framheila þegar þeir horfa á myndbönd af skotárásinni á Trump. Er það að Trump sé mesta tilvistarógn sem Bandaríkin, jafnvel heimurinn, hafa staðið frammi fyrir? Er það að hann hafi sett skotárásina á svið? Er það að (raunverulegu) valdhafarnir séu ekki í samráði um að myrða hann? Enginn gæti hafa klifrað upp á þakið með riffil án þess að tekið væri eftir honum – og það var tekið eftir honum! Heilum 26 mínútum áður en hann skaut á Trump!

 Það hvarflar ekki að mér að láta sem ég viti allan sannleikann um hvað er að gerast á bak við tjöldin. Eins og allir aðrir get ég aðeins dregið ályktanir af rökrænum athugunum og því sem ég sé fyrir framan mig og komist að niðurstöðu út frá því. Sú niðurstaða er: 1. atburðarás sem ekki stenst lyktarprófið og 2. hættulegir einstaklingar sem vilja heim án samkenndar, veruleika og sannleika, ef þeim ekki tekst að láta samkennd, veruleika og sannleika styðja þeirra eigin heimsmynd. 

Að geta ekki haft samúð með náunga sínum er merki um siðblindu. Meðlimir samtaka sem neita náunga sínum um samúð eftir morðtilraun, sem afneita því sem er fyrir framan þá, sem afneita eigin eðlisávísunum vegna hollustu við samtökin – þetta eru merki um að samtök þeirra eru sértrúarsöfnuður með siðblindu að leiðarljósi. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila