Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu

Utanríkisráðherra Finnlands afhendir Guðlaugi Þór fundarhamar Norðurskautsráðsráðsins

Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu á fundi utanríkisráðherra ráðsins sem lauk fyrr í dag í Rovaniemi í Finnlandi og tók Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra við formennskukeflinu af Timo Soini, finnskum starfsbróður sínum. Ráðherrafundurinn markaði lok tveggja ára formennsku Finnlands í ráðinu. Á fundinum var farið yfir starf Norðurskautsráðsins undanfarin tvö ár og lagður grunnur að verkefnum næstu tveggja ára í formennskutíð Íslands.

Utanríkisráðherra kynnti á fundinum formennskuáætlun Íslands undir heitinu „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“. Þar er lögð megináhersla á þrjú málefnasvið: málefni hafsins, loftslagsmál og grænar orkulausnir, og fólkið og samfélög á norðurslóðum. Einnig verður haldið áfram vinnu við að styrkja innra starf Norðurskautsráðsins og kynna starf þess út á við. Þá verður jafnframt unnið að þeim tæplega eitt hundrað verkefnum sem vinnuhópar Norðurskautsráðsins sinna að jafnaði á sviði umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar.

Í ræðu sinni lagði Guðlaugur Þór ríka áherslu á mikilvægi sjálfbærni og minnti á að henni verður ekki náð nema jafnvægi ríki milli umhverfisverndar, efnahagslegrar framþróunar og uppbyggingar samfélaga. „Hlutverk Norðurskautsráðsins hefur aldrei verið brýnna en einmitt nú og athygli á málefnum norðurslóða aldrei meiri samhliða loftslagsbreytingum og sviptingum í alþjóðastjórnmálum. Það er því verðugt verkefni að taka við formennsku í Norðurskautsráðinu á þessum tímapunkti með samvinnu og sjálfbærni að leiðarljósi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Utanríkisráðherrar allra átta aðildarríkja Norðurskautsráðsins sóttu fundinn, en þau eru Bandaríkin, Kanada, Rússland og Norðurlöndin. Að auki sóttu fundinn forystufólk sex frumbyggjasamtaka sem eru fullir þátttakendur í starfsemi Norðurskautsráðsins og fulltrúar 39 áheyrnaraðila, en á meðal þeirra eru ríki eins og Kína, Frakkland, Indland,Þýskaland, Japan og Suður-Kóreu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila