Ísland veitir 250 milljónum í viðbótarframlag til mannúðaraðstoðar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita 250 milljón króna viðbótarframlag til alþjóðlegrar mannúðaraðstoðar. Framlagið rennur til áherslustofnana Íslands í mannúðarmálum: Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF), Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og til starfsemi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í Moldóvu. 

Í tilkynningu vegna málsins segir:

„Á árinu 2022 þurftu 274 milljónir manna á mannúðaraðstoð að halda og er áætlað að sú tala hækki í 339 milljónir á þessu ári. Áhrif langvarandi átaka til að mynda, í Sýrlandi, Jemen og Afganistan, ný átök svo sem stríðið í Úkraínu og alvarlegar afleiðingar loftlagsbreytinga víða í þróunarríkjum settu mark sitt á árið 2022. „

Þórdís segir Ísland hafa ríka skyldu til þess að leggja sitt af mörkum:

„Staða mannúðarmála er skelfileg víða um heim og er nauðsynlegt að efnaðar þjóðir eins og Ísland leggi sitt af mörkum í að bregðast við ástandinu. Mannúðaraðstoð Íslands hefur farið hækkandi síðustu ár, og liggur fyrir að hún haldi áfram að vaxa á yfirstandandi ári. Við Íslendingar erum ákaflega lánsöm og höfum ríka skyldu til að leggja okkar af mörkum,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna veitir neyðarstyrki með áherslu á snemmtækar og skilvirkar aðgerðir og gerir Íslandi kleift að leggja sitt af mörkum á fleiri landssvæðum og málefnasviðum en ella. Þrátt fyrir vaxandi neyð í heiminum drógust framlög til CERF saman á árinu 2022. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila