Íslandsbankamálið: Lögbrot á ábyrgð Bjarna Benediktssonar

Lög voru brotin við sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ber ábyrgð á þeim lögbrotum. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Eyjólfs Ármannssonar þingmanns Flokks fólksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Eyjólfur segir skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna vera einn samfeldann áfellisdóm yfir fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á sölunni og einnig Bankasýslunni sem hafði umsjón með sölunni fyrir hönd fjármálaráðherra. Hann segir mikilvægt að hafa það í huga að það var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sem var að selja í bankanum. Hann hafi meðal annars fengið heimild til sölunnar í fjárlögum þessa árs sem samþykkt voru í desember á síðasta ári auk þess sem Bjarni hafi haft heimild til sölunnar úr öðrum lögum sem snúa að sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum, lagaheimildin sé úr tvennum lögum, annars vegar lögum frá árinu 2012 sem og fjárlögum þessa árs og heiti laganna sé lög um sölu og sölumeðferð eignahluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

„skýrsla Ríkisendurskoðunar er einn áfellisdómur yfir þessari sölu, það er fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á þessu og enginn annar og það voru brotin lög að mínu mati“ segir Eyjólfur.

Eyjólfur segir að þó að Ríkisendurskoðun taki fram í inngangi skýrslunnar að það sé ekki hennar hlutverk að meta hvort lög hafi verið brotin en að mati Eyjólfs sé öll umfjöllun Ríkisendurskoðun um söluna í skýrslunni á þann hátt að hún gefi til kynna að um lögbrot hafi verið að ræða, það sé kristaltært í hans huga.

Sú lagagrein sem Eyjólfur segir að hafi verið brotin sé þriðja grein laga um sölu og sölumeðferð eignahluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum frá 2012. Lagagreinin segi að lögð skuli áhersla á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni og segir Eyjólfur að það sem segir í lögunum um hagkvæmni að þá sé átt við að leitað sé hæsta verð /markaðsverðs fyrir eignahlutinn. Það hafi hins vegar ekki verið gert og því sé augljóslega um lögbrot að ræða.

„það var selt á genginu 117 á sama tíma og það var 120% eftirspurn eftir bréfinu á genginu 122“

Aðspurður um hvort ekki hafi verið fallist á lægra verðið í þeim tilgangi að tryggja að þarna kæmu að erlendir aðilar eins og talað hefði verið um segir Eyjólfur að það hafi verið yfirlýst markmið fjármálaráðherra í greinargerð til Alþingis að hámarka endurheimtur ríkissjóðs en það hafi svo ekki verið niðurstaðan þegar til kastanna kom, heldur hafi margir af þeim aðilum sem keyptu á lága verðinu selt íslenskum lífeyrissjóðum aftur nokkrum dögum síðar á mun hærra verði og hirt mismuninn.

Aðspurður um hvort hann hafi upplýsingar um hverjir erlendu aðilarnir séu og hvaða íslensku lífeyrissjóðir hafi keypt af þeim segir Eyjólfur að hann hafi ekki þær upplýsingar undir höndum eins og sakir standa.

Eyjólfur segir nauðsynlegt að sett verði á laggirnar rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til þess að fá úr því skorið hvað átti sér stað í kringum söluna. Eyjólfur sem meðal annars hefur unnið hjá stórum bönkum í Noregi segir að ef þetta hefði komið upp í Noregi hefði komið fram krafa frá fjármálakerfinu um tafarlaus afsögn ráðherra því slíkt mál hefði orsakað það að fjármálakerfið myndi missa traust á ráðherranum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila