Íslandsbankamálið skólabókardæmi um hvernig ekki eigi að standa að sölu ríkiseigna

Íslandsbankamálið er skólabókardæmi um hvernig ekki eigi að standa að sölu ríkiseigna. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Guðmundar Árna Stefánssonar varaformanns Samfylkingarinnar og fyrrum bæjarstjóra og ráðherra í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Í þættinum rifjaði Arnþrúður upp hvernig staðið hafi verið að sölu ríkiseigna, til dæmis árið 2016 í tíð Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra, á íbúðum sem Íbúðalánasjóður leysti til sín á sínum tíma en eins og kunnugt er hefur mikil leyndarhula verið yfir því hverjir fengu að kaupa þær. Guðmundur Árni bendir á að svipað sé ástatt um söluna á íslandsbanka sem sé skólabókardæmi um hvernig ekki eigi að standa að sölu ríkiseigna.

Hann segir það frekar venju heldur en undantekningu að það séu vildarvinirnir sem alltaf gangi fyrir þegar kemur að því að bjóða ríkiseignir til sölu.

„það er einhver 500 manna klíka sem gengur að öllu þessu og fær þetta fyrir mjög lágt verð og svo hækkar verðið sólarhring eftir þeir hafa keypt, Sjálfstæðisflokkurinn hefur notað þá möntru að þeir einir kunna að fara með peninga og þeir hafa líka talað um að þeir séu vinir atvinnulífsins og frelsinsunnendur en þegar betur er að gáð stenst það ekki skoðun“

Guðmundur bendir á að frelsi sé eitt af grunngildum jafnaðarmanna, jafnaðarmenn tali um frelsi einstaklingsins og einnig í atvinnulífi.

„við erum að tala um það að við sjáum raunverulega samkeppni í okkar samfélagi í atvinnulífinu sem verði til bóta fyrir neytendur þegar upp er staðið en Sjálfstæðisflokkurinn má ekki heyra á það minnst þegar til kastanna kemur því þeir vilja bara frelsi til að drottna og deila og koma ríkiseignum í réttar hendur“ segir Guðmundur.

Hann bendir á að þegar jafnaðarmenn vilji frelsi í sjávarútvegi megi sjálfstæðismenn ekki heyra á það minnst,

„það er nefnilega þannig að þegar kemur að frelsi í atvinnulífi þá eru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur bara vinir örfárra“segir Guðmundur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila