
Íslendingar eru að nálgast þann tímapunkt að þurfa,í fullri alvöru, að íhuga stöðu sína gagnvart EES samningnum. Ég er ekki að segja að Íslendingar þurfi að segja sig frá samningnum en tíðar breytingar á honum þrengja að fullveldinu og ekki síst núna þegar kemur að bókun 35. EES samningurinn sé nánast að verða einhliða. Þetta var meðal þess sem fram kom í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur en í þættinum ræddi hún við Arnar Þór Jónsson lögmann og varaþingmann Sjálfstæðisflokksins.
Arnar Þór segir að það gæti haft sína kosti að hreinlega segja upp EES samningnum því EFTA samningurinn sé enn í fullu gildi og sé að auki stöðugt uppfærður þar sem Sviss sé hluti af honum.
„það er farið að sneiða af okkar sjálfstæði. Ef við teljum okkur einn daginn ekki geta búið við þetta lengur og myndum segja EES samningnum upp þá myndi EFTA samningurinn, sem er að fullu uppfærður, vakna aftur til lífsins og bjóða okkur aðgang að þessum evrópska markaði, Þá þyrftum við ekki að búa við þetta fullveldisframsal sem Svisslendingum, Bretum og fleiri þjóðum þykir ekki ásættanlegt „
Er ekki einangrunarsinni
Hann segir nauðsynlegt að halda því til haga að þegar verið sé að tala um mikilvægi frelsis og fullveldis þá séu menn eins og hann ekki að tala fyrir einangrun landsins. Við sem tölum þessu máli erum ekki einangrunarsinnar.
„ég vil að við séum þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi en ég er á móti því að við séum sett til hliðar og séum einungis í því hlutverki að taka við fyrirskipunum erlendis frá. Slík staða er ekki samstarf heldur einstefna og þó við séum smáþjóð þá eigum við ekki að láta okkur lynda við að vera í slíku hlutverki “ segir Arnar Þór.
Hlusta má á nánari umfjöllun í spilaranum hér að neðan.