Íslenskan með forskot á önnur tungumál í þróunarverkefni á gervigreindar-mállíkani

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fundaði með Sam Altman, stofnanda og framkvæmdastjóra OpenAI í maí 2022.

Íslenska var valin fyrst tungumála, utan ensku, í þróunarfasa nýjustu útgáfu tæknifyrirtækisins OpenAI á gervigreindar-mállíkaninu GPT-4, sem samtalsgreindin ChatGPT byggir á. Verkefnið var formlega kynnt í gær. Samstarf þetta er afrakstur heimsóknar sendinefndar forseta Íslands og ráðherra til Bandaríkjanna síðasta vor þar sem nefndin fundaði meðal annars með Sam Altman, stofnanda og framkvæmdastjóra OpenAI.

Tæknin byggir á ógrynni texta af vefnum sem gervigreindin er þjálfuð á til þess að rýna, greina og byggja svör sín á. Hægt var að nýta íslensku upp að vissu marki í GPT-3 og ChatGPT, en með nýja mállíkaninu GPT-4 verða ákveðin kaflaskil. 40 sjálfboðaliðar hafa unnið að því síðustu vikur, á vegum máltæknifyrirtækisins Miðeindar í samstarfi við OpenAI, að þjálfa GPT-4 í því að svara betur á íslensku. Samstarfið um virkni íslenskunnar er eitt sex sérstakra þróunarverkefna sem OpenAI stendur að í tengslum við útgáfu GPT-4, en það eina af þeim sem tengist þjóðtungu ríkis.

„Þetta er frábær áfangi fyrir tungumálið okkar, og til vitnis um þá mögnuðu vinnu sem unnin hefur verið innan máltækniáætlunarinnar. Ör þróun gervigreindartækni  er mikilvæg fyrir tungumál eins og íslensku, þar felast mörg sóknarfæri sem flest eru ókönnuð – en við fáum þar ákveðið forskot með þessu samstarfi. Við viljum að framtíðin svari okkur á íslensku, og með gervigreindinni aukast möguleikarnir á því. Samvinnan skilar okkur árangri,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands segir þessa nýju tækni geta stuðlað að auknum lífsgæðum.

„Ný tækni verður að auka lífsgæði, annars er lítið gagn í henni. Ný tækni þarf líka styrkja þá sjálfsögðu viðleitni okkar að efla ólík tungumál heimsins, hjálpa okkur að skilja hvert annað og viðhalda fjölbreytni í samfélagi þjóða. Allt þetta getur gervigreindin gert ef rétt er á málum haldið,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Næstkomandi mánudag, þann 20. mars kl. 13, verður haldinn kynningarfundur í Grósku undir yfirskriftinni „Framtíðin svarar á íslensku“. Þar verður árangur máltækniáætlunarinnar kynntur, fjallað um næstu skref í stafrænni vegagerð með máltækni og samstarfið við OpenAI kynnt nánar.  Meðal þátttakenda verður Anna Adeola Makanju, yfirmaður opinberrar stefnumótunar hjá OpenAI og Angela Jiang, vörustjóri hjá OpenAI. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila