Site icon Útvarp Saga

Jens Stoltenberg: „Óttast stórstyrjöld milli Rússlands og Nató“

Jens Stoltenberg var gestur hjá Lindmo í norska sjónvarpinu föstudagskvöld og sagði þá að hann óttaðist stórstyrjöld milli Nató og Rússlands. (Mynd skjáskot norska sjónvarpið NRK).

Tíu mánuðir eru liðnir frá stórfelldri árás Rússa á Úkraínu. Stríð sem Nató að eigin sögn hefur reynt að koma í veg fyrir síðan Rússar tóku Krímskaga árið 2014. Í vikunni var Jens Stoltenberg aðalritari Nató hjá Lindmo í norska sjónvarpinu. Þar lýsir hann því, hvernig það er að vera yfirmaður Nató í einni stærstu kreppu sem verið hefur í Evrópu í seinni tíð. Stoltenberg sagði:

„Mér finnst það mjög alvarlegt og þetta er örlagaríkur tími fyrir Evrópu og þar með einnig Noreg. Ef hlutirnir fara úrskeiðis geta þeir farið hrikalega úrskeiðis og Nató vinnur að því á hverjum degi að koma í veg fyrir að stríðið stigmagnast.“

Pútín hefur breyst

Jens Stoltenberg er ekki ókunnugur því, hvernig stríð virkar og hefur áhrif á fólk. Afi hans tók þátt í seinni heimsstyrjöldinni og faðir hans Thorvald Stoltenberg var stjórnarerindreki, varnarmálaráðherra og utanríkisráðherra. Stoltenberg segist hafa lært það á uppvaxtarárunum, að friðurinn sé ekki sjálfsagður. Hann og Pútín þekktust frá byrjun 20. aldar. Á þeim tíma var Stoltenberg nýkjörinn forsætisráðherra Noregs og Pútín nýorðinn forseti Rússlands. Samkvæmt Stoltenberg var tónninn sáttfús í fyrstu en fór síðan smám saman harðnandi. Stoltenberg telur að Pútín hafi vanmetið Úkraínu:

„Þegar hann var nýkjörinn forseti árið 2000 var hann umsækjandi og vildi samstarf við Vesturlönd. Hinn síðari Pútín er miklu árásargjarnari og segir sögur sem eru ekki sannar.“

„Hann hefur trúað því að hann geti náð því sem hann vill með hervaldi og grimmd, sem við höfum ekki séð síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þeir hafa vísvitandi barið óbreytta borgara með því að skera niður vatnsbirgðir og ráðast á skotmörk sem ekki eru hernaðarleg. Þetta er ákaflega grimmur hernaður. Ég held, að hann nái ekki að brjóta Úkraínu. Þvert á móti er hann að virkja enn meiri stuðning við Úkraínu.“

Óttast stórstyrjöld

Stoltenberg og bendir á þá staðreynd, að Nató hefur aukið viðveru sína í austurhluta bandalagsins og það sé ekkert rými fyrir Pútín að efast um getu Nató til að verja Nató-ríki. Aðspurður hvað hann óttast mest í vetur svarar hann:

„Ég óttast að stríðið í Úkraínu fari úr böndunum og breiðist út í stórstyrjöld milli Nató og Rússlands. En ég er þess fullviss, að okkur takist að forðast það. Pútín veit að það er einn fyrir alla og allir fyrir einn. Mikilvægasta verkefni NATO er að koma í veg fyrir allsherjar stríð í Evrópu og við vinnum að því á hverjum einasta degi.“

„Heimurinn hefur þokast áfram áratug eftir áratug. NATO er sterkara en það hefur verið í mörg ár. Ekki síst hefur Pútín vanmetið getu okkar til að vernda og verja hvert annað. Svo lengi sem við gerum það erum við örugg.“

Lítill sem enginn áhugi Vesturlanda á samningum við Rússland

Í fréttum Breitbart segir, að hingað til hafi átökin haldist á vettvangi umboðsstríðs milli Vesturlanda og Rússlands. Evrópusambandið, Bretland og Bandaríkin veita Úkraínu milljarða í formi vopna, hergagna, farartækja og peninga. Bandaríkjamenn og Bretar hafa tekið að sér þjálfun úkraínskra hermanna til að fræða þá um hvernig eigi að nota háþróuð vopn, sem send eru til Kænugarðs. Washington hefur einnig nýlega viðurkennt að hafa sent hermenn til Úkraínu, sem eykur möguleikann á því að bandarískir og rússneskir herir komist í færi hvorir við aðra.

Þrátt fyrir vaxandi orkukreppu í Evrópu, hugsanlega notkun kjarnorkuvopna og manntjón í Úkraínu hefur greinilega verið lítill áhugi á samningaviðræðum við Moskvu frá hernaðarbandalaginu undir forystu Bandaríkjamanna hvað þá ESB nema að undanskildu Ungverjalandi og Viktor Orbán forsætisráðherra. Undanfarna viku hefur hins vegar orðið nokkur hreyfing í Berlín og París, þar sem bæði Olaf Scholz kanslari og Emmanuel Macron forseti hafa gefið til kynna hugsanlegan ramma fyrir friðarviðræður.

Macron forseti sagði, að í hvaða uppgjöri sem er, þá yrðu Vesturlönd að viðurkenna þörf Rússa fyrir öryggistryggingu og gaf þar líklega í skyn að stöðva bæri inngöngu Úkraínu í Nató, sem myndi gera Bandaríkjunum kleift að koma fyrir eldflaugum á þröskuldi Rússlands. Scholz kanslari sagði, að Evrópa ætti að íhuga að endurvekja þá friðarsamninga sem stóðust í kalda stríðinu.

Traust Vesturlanda á Rússlandi „næstum núll“

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagði fyrir sitt leyti, að allar samningaviðræður yrðu erfiðar í ljósi þess að traust til Vesturlanda í Moskvu sé nú „næstum núll.“ Rússneski leiðtoginn vitnaði í nýlegt viðtal við Angelu Merkel, fyrrverandi kanslari Þýskalands, þar sem hún sagði, að hvatinn að baki Minsk-samkomulaginu frá 2014 væri einungis til að „kaupa tíma“ fyrir Úkraínu til að byggja upp her sinn. Pútín sagði í svari við ummælum Merkels:

„Markmið þeirra var aðeins að vopna Úkraínu og undirbúa fyrir stríðsrekstur. Við sjáum það. Satt að segja höfum við kannski áttað okkur á því of seint og hefðum kannski átt að byrja á þessu öllu fyrr.“

„Á endanum verða viðræður. Við erum tilbúin í þær, ég hef margoft sagt það. En það vekur okkur til umhugsunar um við hverja við eigum að semja.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla