Þó það sé mjög margt gott í nýju örorkufrumvarpi þá eru enn þar ýmsir alvarlegir vankantar sem verður að lagfæra auk þess sem skýrleiki í frumvarpinu er ekki nægilega mikill og því bráðnauðsynlegt að gera breytingar á frumvarpinu áður en það verður samþykkt á þingi. Þetta segir Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í dag.
Alvarlegir gallar í frumvarpinu
Jóhann segir til að mynda muni stór hluti öryrkja sitja eftir þegar kemur að þessum breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Jóhann nefnir sem dæmi að þeir öryrkjar sem séu algerlega óvinnufærir og hafi jafnvel engin réttindi í lífeyrissjóði og búa einir séu sá hópur sem fái ósköp lítið úr þeim breytingum sem verið sé að gera á kerfinu. Það sé vegna þess að gert sé ráð fyrir að heimilisuppbótin sem og aldurstengd uppbót lækki. Ef svo fari að desember eingreiðslan sem greidd hafi verið undanfarin ár falli niður eins og gert sé ráð fyrir, verði frumvarpið að lögum, þá sé þarna hópur öryrkja sem mun beinlínis lækka í árstekjum.
Starfsgetumatið leiðir til mismununar
Þá sé það fólk sem teljist með tekjulægri hópum og sé ekki þegar komið með örorkumat mun verða með lægri heildartekjur í nýja kerfinu heldur en þeir sem þegar séu komnir á örorku vegna samspils virknistyrks og hlutaörorkukerfisins. Hann segir að þá sé starfsgetumatskerfið, sem gert sé ráð fyrir að virknisstyrkurinn muni tengjast, ekki hafa gefist vel annars staðar og hafi meðal annars leitt til sjálfsvíga. Hins vegar segir Jóhann að í þessu frumvarpi sé verið einmitt verið að taka þær afleiðingar inn í myndina og farið ákveðnar leiðir til þess að breytingar leiði ekki slíkt af sér.
Óljóst hverjir eiga að framkvæma starfsgetumat
Hvað óskýrleika í lögunum varðar segir Jóhann að til dæmis sé það algerlega óljóst hverjir eigi að framkvæma starfsgetumatið. Ekkert komi fram um það í frumvarpinu og það sé algerlega ótækt að það sé ekki skýrar línur með það atriði.
Jóhann Páll ásamt félögum sínum í Samfylkingunni hefur í ljósi frumvarpsins ákveðið að bjóða öryrkjum til fundar í hátíðarsal í nýjum húsakynnum Alþingis Smiðju þar sem fólki verður gefinn kostur á að koma fram með sitt álit á frumvarpinu og ábendingar hvað mætti betur fara en fundurinn verður haldinn á morgun kl.09:30.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun um málið í spilaranum hér að neðan