John Cleese neitar að fjarlægja „umdeilda“ senu í „Life of Brian“

Klassísk gamanmynd Monty Python hópsins „Life of Brian“ frá 1979 verður sett í búning leikrits. John Cleese neitar að samþykkja að taka burtu atriðið, þar sem karlmaður segist vera kona.

Í klassíska atriðinu sem sumum finnst í dag vera „transfóbískt,“ lýsir karlkyns persóna því yfir, að hann vilji vera kona sem eigi að kalla „Loretta“ og muni fæða börn. Persóna John Cleese segir manninum að hugmyndin sé fáránleg þar sem karlmenn fæða ekki börn en aðrir viðstaddir gefa til kynna að þeir séu hlynntir rétti mannsins til barneignar. Þá hrópar maðurinn sem vill vera Loretta: „Ekki kúga mig!“

Senan lýsir umræðu í hópi sem kallar sig „Fylking fólksins í Judea“ og gerir grín að öfgahópum á áttunda áratugnum. Fjölmiðlar höfðu áður greint frá því, að Cleese hafi samþykkt að fjarlægja atriðið úr væntanlegri leiksýningu en því neitar hann alfarið. Hann skrifar á Twitter, að honum hafi verið „sterklega ráðlagt“ að taka burtu atriðið en að sjálfsögðu hafi hann engin áform um að fjarlægja senuna með Lorettu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila