Jón Gnarr í símatíma: Hælisleitendur, uppskipting frambjóðenda eftir fylgi

Í Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri á tók á móti Jóni Gnarr leikara, forsetaframbjóðanda og fyrrverandi borgarstjóra þar sem hún ræddi við hann um sýn hans á embætti forseta Íslands og hlutverk hans. Þá var opnaður síminn fyrir hlustendur sem lögðu fram spurningar fyrir Jón.

Í þættinum spurði hlustandi Jón út í skoðun hans á málefnum hælisleitenda. Jón sagði að honum fyndist að setja þurfi skýran ramma utan um hversu mörgum hælisleitendum Ísland geti tekið á móti og að það sé gert vel. Hann segir ljóst að til þess að geta tekið á móti hælisleitendum þurfi að vera innviðir til staðar til þess að það sé gerlegt og það sé ekki verið að taka á móti fólki án þess að það sé skýrt hvað bíði þess. Hann segir að hann myndi gjarnan vilja sjá að Alþingi setji slíkan ramma. Sjálfsagt sé að hjálpa fólki í neyð en ekki sé hægt að gera meira en við getum.

Þarf að ríkja jafnræði á meðal frambjóðenda

Þá spurði hlustandi Jón hvað honum þætti um að þegar fjölmiðlar skipti upp frambjóðendum í kappræðum eftir fylgi í skoðanakönnunum og hvort honum þætti það sanngjarnt. Jón sagðist hafa velt þessu talsvert fyrir sér en hefði ekki myndað sér sterka skoðun á því. Hann sagði að hann þekkti hins vegar ekki alveg þær forsendur sem fjölmiðlar gefi sér til þess að haga röðun frambjóðenda á þennan hátt, mögulega gætu legið þar að baki einhver mjög skynsamleg rök en hann hefði ekki haft tíma til að kynna sér það. Hins vegar sagði Jón að honum finnist mikilvægt að það ríki jafnræði þegar kemur að þessu.

Jón með margþættan bakgrunn sem nýtist vel í embætti forseta

Jón fékk einnig spurningu frá hlustanda sem var á báðum áttum hvort hann ætti að kjósa Jón eða Arnar Þór Jónsson sem væru báðir mjög frambærilegir og spurði því Jón hvers vegna hann ætti að kjósa Jón. Jón svaraði því til að honum fyndist ástæðan fyrir því að fólk ætti að kjósa hann frekar en einhvern annan vera þá, að hann hefði margþættan bakgrunn og kæmi úr skapandi geira. Hann væri sjálfstætt starfandi listamaður og honum finnist vera brýn þörf fyrir að fá slíkan einstakling á Bessastaði og inn í stjórnkerfið. Jón sagði að það væri komið mjög margt fólk með lögfræðimenntun eða með bakgrunn úr stjórnsýslu inn í stjórnkerfið og það væri kominn tími á að breyta til og auka fjölbreytileikann.

Hlusta má á þessar og fleiri spurningar og svör Jóns í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila