Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar:
Skafti Harðarson formaður Samtaka skattgreiðenda hefur sýnt fram á að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa á undanförnum árum nýtt stórfé úr ríkissjóði til að stofna til óþarfrar starfsemi á vegum ríkisins. Deildi ég nýlega hér á fasbókinni viðtali við hann á Bylgjunni þar sem hann gerir sannfærandi grein fyrir þessu. Oftast eru það hagsmunaaðilar á viðkomandi sviði sem krefjast þess að ríkið standi að ákvörðunum um slíkt. Og þá er oft látið undan slíkum kröfum. Er nú svo komið að stór hluti þjóðarinnar vinnur hjá ríkinu við óþörf störf sem kosta skattgreiðendur stórfé.
Ég hef látið mig starfsemi Hæstaréttar varða á undanförnum árum. Landsréttur hóf starfsemi á árinu 2018 til að létta álagi af Hæstarétti sem þá var allt of mikið. Við breytinguna varð svo sannarlega dregið úr þessu álagi. Í grein sem ég skrifaði á fasbókina 18. apríl á þessu ári („Lystisemdir dómara á kostnað skattgreiðenda“) tók ég saman tölur úr ársskýrslum Hæstaréttar sem sýndu að málum sem rétturinn hafði sinnt eftir breytinguna fækkaði um 80-90 prósent frá því sem áður hafði verið. Samt var dómurum við réttinn aðeins fækkað um tvo, úr níu í sjö, í stað þess að fækka þeim í fimm eins og þeir höfðu lengst af verið áður en sprenging varð í fjölda málanna á síðari hluta síðustu aldar.
Lá fyrir að hér var verið að láta undan kröfum dómaranna sjálfra. Taldi ég það vera hreinlega hneykslanlegt að stjórnvöld og löggjafi skuli hafa látið undan þessum kröfum. Þessir hátekjumenn ríkisins hafa síðan bæði getað bætt við sig öðrum vel launuðum störfum, oft hjá ríkinu, og spókað sig í skemmtiferðum til útlanda. Þetta gerist á kostnað skattgreiðenda og nemur óþarfur kostnaður af þessum sökum mörgum tugum milljóna á ári. Þetta er einfalt og augljóst dæmi um þá meðferð á ríkisfé sem Skafti Harðarson hefur bent á.
Það er löngu kominn tími til að stjórnendur í landinu hætti að láta undan kröfum hagsmunaaðila um aukin ríkisútgjöld þeim sjálfum til handa. Landsmenn ættu að taka kröftuglega undir þau sjónarmið sem Skafti Harðarson hefur talað fyrir og taki nú að knýja á um samdrátt á útgjöldum ríkisins í stað þess að auka þau. Kannski einstakir flokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn séu að tapa fylgi sínu núna vegna undanlátsemi við hagsmunakröfur ríkisstarfsmanna um útgjöld úr ríkissjóði?