Kærðu brot Alþingis gegn lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum

Haraldur Ólafsson og Birgir Steingrímsson fulltrúar Orkunnar okkar afhentu Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur forstjóra Vinnueftirlitsins kæruna í morgun.

Fulltrúar Orkunnar okkar lögðu í morgun fram kæru hjá Vinnueftirlitinu vegna brota Alþingis gegn lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. í kærunni segir meðal annars ” Nú hagar svo til að nefnda- og þingfundir á Alþingi hafa staðið yfir nánast samfellt sólarhringum saman.  Fundað er á víxl í nefndum og í þinginu, hvíldarlaust. Störf Alþingis eru um þessar mundir í andstöðu við Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum IX kafla laganna um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma. Lögboðinn 11 klst. hvíldartími er órafjarri því að vera virtur.”. Þá bendir Orkan okkar á í kærunni að slík lög séu ekki sett af tilefnislausu, enda sé mikilvægt að starfsmenn ekki síst alþingismenn haldi fullri einbeitingu við vinnu sína og að þeir bíði ekki tjón á heilsu sinni ” Málið er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að um sjálfan löggjafann er að ræða og með því háttalagi sem hér er vísað til er gefið í skyn að lögum þurfi bara að fylgja þegar hentar. Förum við með bréfi þessu fram á að Vinnueftirlitið og/eða lögreglan bregðist tafarlaust við og stöðvi yfirstandandi lögbrot.“,segir í kærunni.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila