Kanna þarf bakgrunn fólks sem hingað kemur

Það verður að kanna bakgrunn hælisleitenda svo við vitum hverjir eru að koma hingað til lands. Þetta segir Guðmundur Árni Stefánsson bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og varaformaður Samfylkingarinnar en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.

Óæskilegum snúið við á landamærunum

Guðmundur segir það framför og fagnaðarefni að núna sé það orðið að veruleika að fólki sem er ekki talið æskilegt að fái hælisvist hér sé snúið við á landamærunum. Það sé þó athyglisvert að það hafi ekki verið gert fyrr því sú heimild hafi verið fyrir hendi í lögum og því hefði verið hægt að grípa til þessara ráða miklu fyrr.

Kostnaður vegna hælisleitenda fer minnkandi

Hvað kostnað varðar af komu hælisleitenda hingað til lands þá sé hann mjög mikill, en hann fari minnkandi með fækkun þeirra hælisleitenda sem hingað koma. En það gleymist oft að mati Guðmundar Árna að nefna að það hlýst einnig mikill óbeinn kostnaður af því farandverkafólki sem hingað kemur.

Atvinnurekendur bera líka ábyrgð

Guðmundur Árni segir að það séu fyrst og fremst atvinnurekendur sem beri ábyrgð því þeir hafi ekki tök á því að koma öllu því fólki fyrir á meðan það vinnur hér á landi. Það hafi því áhrif á húsnæðismarkaðinn sem sé þjóðinni mjög dýr nú um stundir. Það sé mjög mikilvægt að hafa þetta í huga og gleyma ekki þessum þáttum þegar komi að umræðunni um útlendingamál.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila