Karlmaður handtekinn grunaður um skotárásina á Dubliner

Lögreglan handtók í kvöld karlmann sem grunaður er um að hafa hleypt af byssu inni á kránni Dubliner í gærkvöld.

Mikil leit fór fram í dag á hinum ýmsu stöðum í Reykjavík að manninum sem lögregla mat hættulegan vegna eðli árásarinnar. Lögreglu bárust fjölmargar vísbendingar vegna leitarinnar sem hófst eftir að maðurinn gekk inn á krána og skaut þar af byssunni.

Byssan sem talin er hafa verið notuð fannst skammt frá kránni en samkvæmt upplýsingum hafnaði kúla úr byssunni í auglýsingaskilti ofan við afgreiðsluborðið á staðnum. Lögregla hefur greint frá því að hún telji árásina tengjast árásinni á Bankastræti Club sem framin var í nóvember á síðasta ári. Lögreglan býst við að taka ákvörðun um gæsluvarðhald yfir manninum á morgun. Að sögn lögreglu verða frekari upplýsingar ekki veittar að svo stöddu.

Deila