Kemur á óvart hversu margir sjálfstæðismenn styðja Katrínu

Það skýtur skökku við að sjá í könnunun hversu margir sjálfstæðismenn styðja Katrínu Jakobsdóttur í embætti forseta Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn hefur skaðast við samstarfið við VG og margir flokksmenn ósáttir við fylgishrun Sjálfstæðisflokksins. Þetta segir Jón Kristinn Snæhólm sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Jón Kristinn segir það afar sérstakt að sjá að Stokkhólmsheilkenni hafi gripið marga sjálfstæðismenn og þeir séu að kyssa þann refsivönd sem hafi skaðað flokkinn. Það sé þó ekki svo að það sé meirihluti sjálfstæðismanna sem styðji Katrínu. Jón Kristinn segist sjálfur styðja Baldur Þórhallsson og það geri einnig margir einstaklingar sem hann þekki innan Sjálfstæðisflokksins.

VG stöðvar hvalveiðar

Arnþrúður bendir á að í tíð Katrínar hafi verið fjölmörg mál sem hafi verið í gíslingu VG og þar megi til nefna hvalveiðarnar, útlendingamálin, virkjanamálin og fjölmörg önnur mál og því komi stuðningur flokksmanna Sjálfstæðisflokksins við Katrínu á óvart eftir því sem margir ræða um.

Nú verið að brenna olíu því VG vilji ekki virkjanir

Jón Kristinn tekur undir það og segir að VG segi um þá sem styðji hvalveiðar að þeir stundi dýraníð, þeir sem styðji ekki fjöldamóttöku hælisleitenda séu vont fólk og svo framvegis. Hér sé nú árið 2024 verið að brenna gríðarlegri olíu þar sem VG vill ekki leyfa virkjanir. Síðan sjáist undir hælana á þekktu fólki innan Sjálfstæðisflokksins inn á kosningaskrifstofu Katrínar til þess að koma henni á Bessastaði. Þetta segir Jón Kristinn að sé óskiljanlegt.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila